Umboðsmaður Alþingis telur sig ekki hafa lagaheimild til að skipta sér af gjaldtöku Isavia Innanlandsflugvalla af bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll.
Nýverið birtist svarbréf á vef Umboðsmanns Alþingis en Austurfrétt sagði frá innihaldinu. Þar kemur fram að í kvörtuninni hafi athugasemdir verði gerðar við lagagrundvöll gjaldtökunnar og að jafnræðis hafi ekki verið gætt við ákvörðun við fyrirkomulag hennar. Þó kemur hvergi fram í svarinu nákvæmlega hverjar lagaforsendurnar séu.
Hlutverk Umboðsmanns er, að því er segir í svarinu, að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í umboði Alþingis, þar á meðal einkaaðila sem fara með opinbert vald. Isavia ohf., sem og dótturfélagið Isavia Innanlandsflugvellir ehf., sem innheimta bílastæðagjaldið starfi hins vegar á grundvelli einkaréttar þrátt fyrir að vera í eigu ríkisins. Því sé ákvörðun um gjaldtökuna einkaréttarlegs eðlis en snýst ekki um ákvörðun um rétt eða skyldu borgaranna í skilningi stjórnsýslulaga.
Af þeim sökum séu ekki fyrir hendi lagaskilyrði sem leyfi Umboðsmanni að taka kvörtunina til frekari skoðunar.