Emmy-verðlaunin fara fram í 71. sinn í Microsoft-höllinni í Los Angeles í nótt að íslenskum staðartíma, en hátíðin hefst kl. 20 vestanhafs.
Emmy-verðlaunin eru verðlaunahátíð sjónvarpsframleiðenda, Óskarsverðlaun sjónvarpsins. Það eru ótal margir tilnefndir eins og vera ber. HBO stöðin trónir á toppnum með 47 tilnefningar , Netflix með 30 og Prime Video í þriðja sæti með 18 tilnefningar.
Í kvöld er Game of Thrones (HBO) með flestar tilnefningar, 14 talsins, When They See Us (Netflix) með 11 tilnefningar, Barry (HBO) með 9 tilnefningar, og Escape at Dannemora (Showtime), Fosse/Verdon (FX) og The Marvelous Mrs. Maisel (Prime Video) allar með 7 tilnefningar hver.
Athugið: Hér er einungis um að ræða fjölda tilnefninga í kvöld, en hátíðin skiptist í tvennt. Fyrir viku síðan fór fyrri hlutinn fram, en þar voru veittar viðurkenningar fyrir listræna þætti iðnaðarins.
Eins og fram hefur komið í fréttum hlutu tveir íslendingar verðlaun þá, Hildur Guðnadóttir fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl og Aron Hjartarson, ásamt teymi hans hjá Framestore, fyrir framúrskarandi árangur í gagnvirkri miðlun innan óskrifaðs atriðis.
Sjá einnig: Íslenskir listamenn gera það gott en ríkislögreglustjóri er ósáttur
Í kvöld verða veitt verðlaun í aðalflokkunum, eins og besta leikstjórn, besti leikur, besta þáttaröð og fleira. Game of Thrones gæti toppað eigið met nú í kvöld, fyrir flest Emmy-verðlaun einnar þáttaraðar. Þurfa þrjár styttur að falla GOT í hlut í kvöld til viðbótar við tíu sem þáttaröðin hlaut fyrir viku.
Sjá má allar tilnefningar hér.
Enginn aðalkynnir er á hátíðinni, en fjöldi sjónvarpsþátta mun veita verðlaun, og eru margar þeirra einnig tilnefndar til verðlauna.
Það verður því mikið um dýrðir í kvöld í Los Angeles bæði á rauða dreglinum, sviðinu og á sjónvarpsskjám aðdáenda um allan heim.