Tveir einstaklingar réðust inn á heimili pars í Mosfellsbænum á aðfaranótt miðvikudags og réðust á mann þar sem hann lá í rúmi sínu við hlið konu sinnar. Í næsta herbergi við parið sváfu ung börn þeirra. Maðurinn er sagður vera mjög illa farinn, sérstaklega í andlitinu, eftir árásina, og þurfti hann fara upp á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans. Í samtali við Mannlíf staðfesti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að málið væri í rannsókn en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er annar maðurinn sem réðst inn á heimilið Íslendingur og er sá aðili á þrítugsaldri og hinn einstaklingurinn erlendur en ekki vitað um aldur hans. Ekki liggur fyrir af hverju mennirnir réðust á heimilisföðurinn en eftir því sem Mannlíf kemst næst eru mennirnir ennþá ófundnir.