Kvikmyndin Agnes Joy verður frumsýnd í íslenskum bíóhúsum í næsta mánuði. Ein af stærstu stjörnum íslenskrar rappsenu, Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, fer með hlutverk í myndinni. Hann segist hafa skemmt sér konunglega við gerð hennar en viðurkennir að hann kvíði því að sjá sjálfan sig á hvíta tjaldinu.
„Ég hef ekki gert neitt í líkingu við þetta áður, leikið svona stórt hlutverk og ég veit ekki alveg hvernig ég á að haga mér og við hverju á að búast. Ég var nefnilega erlendis þegar tökuliðinu, leikurunum og aðstandendum var boðið á forsýninguna þannig að ég fer að sjá hana í bíó á sama tíma og allir aðrir, sem er skemmtilegt en líka mjög skerí. Ég á örugglega eftir að svitna. Það er eiginlega allt hræðilegt við þetta,“ segir Króli blátt áfram þegar hann er spurður hvort hann sé spenntur að sjá myndina.
Agnes Joy er þroskasaga mæðgna frá Skaganum. Myndin er í leikstjórn Silju Hauksdóttur en með helstu hlutverk fara Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cruz, Þorsteinn Bachmann, Björn Hlynur Haraldsson og svo Króli, sem leikur Óskar, besta vin aðalpersónunnar. „Þau Agnes eru nánir vinir og Óskar er svona rödd skynseminnar í sambandinu, talar ekkert í kringum hlutina, heldur lætur allt flakka. Sem er ólíkt mér, ég er langt frá því að vera svona skynsamur,“ útskýrir Króli og hlær og játar að það hafi því komið sér vel að geta rætt persónuna við leikstjórann og handritshöfundana, það hafi hjálpað honum að skilja hana betur. „Auðvitað verður maður að finna sína nálgun, en ég veit ekki hvað ég hefði gert án þeirra.“
„… ég fer að sjá hana í bíó á sama tíma og allir aðrir sem er skemmtilegt en líka mjög skerí. Ég á örugglega eftir að svitna.“
Spurður hvernig það hafi komið til að honum bauðst hlutverkið, segist hann nú bara hafa fengið símtal sumarið 2018 og verið boðaður í prufu og farið vel stressaður í hana. „Svo var ég kallaður í aðra prufu. Þetta var nú ekkert í fyrsta sinn sem ég hef farið í gegnum það ferli,“ tekur hann fram, „þannig að ég gerði mér temmilegar væntingar. En eftir seinni prufuna var mér boðið hlutverkið, sem var geggjað.“
Og fannst þér ekkert mál að taka að þér svona stórt hluverk? „Jú, jú, maður er alltaf stressaður. Ég held að það hverfi aldrei, sama hversu reynslumikill maður verður. Þannig að ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að þetta hafi verið auðvelt. Það hjálpaði að vera umkringdur fagfólki. Ég er þakklátur fyrir það.“
Leiklistin heillar
Þetta er þó langt í frá í fyrsta sinn sem Króli stendur fyrir framan myndavélar. Hann hefur leikið í myndböndum og er sem tónlistarmaður þaulvanur því að koma fram. Spurður hver sé helsti munurinn á þessu tvennu er hann fljótur til svars. „Öll þessi rútína sem fólst í því að keyra upp á Akranes, þar sem myndin var tekin upp síðasta vetur og vinna þar svo í marga tíma. Það er ólíkt því sem ég hef verið að gera. Svo má maður alveg gera mistök, þá er bara byrjað að taka upp á nýtt. Sem er til dæmis ekki hægt á sviði.“
Spurður hvort fyrri reynsla hafi hjálpað við gerð myndarinnar hugsar hann sig um. „Ég veit það ekki alveg. Ef ég á að segja eins og er þá held ég að kvikmyndaleikur sé frekar eitthvað sem komi með æfingunni. Ég held að enginn nái að slá allar keilur í fyrstu atrennu. Vonandi stóð ég mig bara bærilega. Það kemur í ljós.“
Það er þó auðheyrilegt að honum fannst gaman að leika í myndinni og þegar ég fer að spyrja meira út í það kemur upp úr kafinu að leiklist er eittvað sem Króli gæti vel hugsað sér að starfa við í framtíðinni. „Já, ég fékk örlitla leiklistarbakteríu sem krakki þegar ég lék í myndinni Bjarnfreðarson og svo í tveimur leikritum í Þjóðleikhúsinu. Ég finn alveg að þetta er eitthvað sem mig langar til að vinna meira við.“
Gætirðu hugsað þér að snúa þér alfarið að leiklist? „Ja, ég er nú ekki tilbúinn að segja það. Ég er ekki farinn að hugsa svo langt. Það var alla vega frábært að fá að leika í Agnes Joy. Ég stend í þakkarskuld við fólkið sem veitti mér það tækifæri og ég væri alveg til í að leika meira. Núna tek ég til dæmis þátt í söngleiknum We Will Rock You, sem er mjög gaman. Ég hef bara nóg að gera í bili og er mjög sáttur við það.“