Stúdentar fyrir Palestínu í Háskóla Íslands og í Listaháskóla Íslands, kalla til verkfalls í dag, klukkan 12:00 en þannig vilja þeir mótmæla aðgerðarleysi háskólayfirvalda gagnvart þjóðarmorðinu í Palestínu.
Í viðburðarlýsingu frá Stúdentum fyrir Palestínu í Háskóla Íslands á Facebook segir meðal annars:
„Mánudaginn 7. október er ár liðið frá því að Ísrael hóf mannskæðasta og hrottalegasta kaflann í 76 ára löngu landráni, hernámi og þjóðarmorði gegn Palestínufólki. Á þessu eina ári hafa allir háskólar á Gaza verið jafnaðir við jörðu, háskólanemendur myrtir, palestínsku háskólafólki í Jerúsalem vísað úr störfum og fangelsað og formlegu skólastarfi er frestað, nú annað skólaárið í röð. Þrátt fyrir að allar helstu alþjóðastofnanir og -dómstólar hafi kveðið á um að hernám Ísraels og landtaka sé ólögleg og að þeim beri að stöðva árásir á Gaza tafarlaust heldur Ísrael áfram að varpa sprengjum á tjaldbúðir á Gaza og fangelsa, myrða og pynta fullorðna og börn á Vesturbakkanum. Í ofanálag réðst Ísrael af auknum krafti á Líbanon, þar sem mörg hundruð manns hafa látist í sprengjuárásum þeirra á síðustu dögum.
Stúdentar í HÍ hyggjast ganga úr tíma klukkan 12:00 og koma saman á Háskólatorgi til að „andæfa aðgerðarleysi HÍ gagnvart þjóðar- og menntamorðinu í Palestínu,“ eins og það er orðað í viðburðarlýsingunni.
Nemendur í Listaháskólanum ætla einnig að fara í verkfall klukkan 11:20 og marsera eftir Kringlumýrarbraut og Laugavegi að Stakkahlíð.
Í Stakkahlíð hefst viðburður kl. 12 til að mótmæla „aðgerðarleysi LHÍ gagnvart þjóðar- og menntamorðinu í Palestínu.“
Kröfurnar sem Stúdentar fyrir Palestínu gera til LHÍ eru eftirfarandi:
- Að Listaháskóli Íslands og allar stofnanir hans taki skýra og opinbera afstöðu gegn þjóðarmorðinu í Palestínu og menntamorðinu sem á sér stað á Gaza.
- Að Listaháskóli Íslands stofni ekki til samstarfs við ísraelska háskóla og tengdar stofnanir.
- Að Listaháskóli Íslands opinberi öll tengsl háskólans og tengdra stofnana við ísraelska háskóla, stofnanir, fyrirtæki og aðra tengda aðila og bindi tafarlaust enda á þau.
- Að Listaháskóli Íslands taki virkan þátt í enduruppbyggingu menntakerfisins á Gaza, auki samstarf við palestínska háskóla og fræðafólk og styðji á annan hátt við menntun nemenda á Gaza.