Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla á Akureyri getur hvorki staðfest né neitað því að skólinn sé einn af átta skólum sem fara í verkfall, verði það samþykkt af kennurum.
Treystir forystunni
Eftir að tilkynnt var um fordæmalausar hugmyndir forystu Kennarasambandsins um skæruverkföll í átta leik- grunn og framhaldsskólum, hafa margir velt fyrir sér hvaða nemendur verði fyrir mögulegum verkföllum. Samkvæmt óstaðfestum heimildum Mannlífs er um að ræða fjóra leikskóla, þrjá grunnskóla og einn framhaldsskóla.
Mannlíf heyrði í skólastjóra Lundarskóla á Akureyri, Maríönnu Ragnarsdóttur, sem er einn þeirra skóla sem mögulega er um að ræða og spurði hana hvort Lundarskóli sé einn þeirra áttta skóla sem fara í verkfall, verði það samþykkt, svaraði hún: „Nei, ég get ekki staðfest það. Þetta er allt saman í ferli hjá KÍ og ég get ekkert staðfest hvort minn skóli sé einn af þeim.“
Aðspurð hvort hún gæti neitað því svaraði hún: „Nei, ég get ekki neitað því en ég get ekki heldur staðfest það því að KÍ er bara að vinna í málum með öllum grunnskólum, leikskólum og framhaldsskólum á landinu.“
En hvað finnst þér um hugmyndir um skæruverkföll kennara?
„Forysta Kennarasambandsins er náttúrlega bara með samningsumboð fyrir okkur öll í þessum grunnskóla og öðrum grunnskólum á landinu ásamt framhalds og leikskólum, þannig að við treystum forystu okkar.“
„Kom okkur algjörlega að óvörum“
Mannlif heyrði einnig í Sesselju Þóru Gunnarsdóttur, skólastjóra Sjálandsskóla í Garðabæ og spurði hana hvort hennar skóli væri einn þeirra átta skóla sem um er rætt en ábending um það barst Mannlífi. Ekki kannaðist Sesselja við það. „Nú ert þú að segja mér fréttir. Ég hef ekki heyrt um það og veit ekki til þess. Ég hef engar upplýsingar um það, því miður.“
Aðspurð hvað henni fyndist um það ef skóli hennar væri einn þeirra átta skóla sem mögulega fara í verkfall svaraði Sesselja: „Ég hef kannski ekki alveg myndað mér nægilega sterka skoðun á því. Ég skil eiginlega ekki hvaða vegferð … upplýsingarnar koma í raun bara frá Kennarasambandinu í gær og kom okkur algjörlega að óvörum. Í rauninni hefur verkfallsumræða hér innahúss að mér vitandi ekki verið nein.“ Bætti hún við að sú umræða hafi þó heyrst annað slagið úti í samfélaginu, mishávært en alls ekki í Sjálandsskóla.
Kosning um skæruverkfallið stendur til hádegis á morgun.