Sigurður Hólmar Jóhannesson segir líf dóttur sinnar hafa tekið stakkaskiptum eftir að hún fór að nota CBD olíu. Sigurður, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist segist lært að lifa í meira æðruleysi eftir að Sunna dóttir hans greindist með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm:
„Þegar maður á börn, þá gerir maður einfaldlega allt fyrir börnin sín. Síðan hún greindist með þennan sjúkdóm fyrir 18 árum er ég búinn að vera að reyna að finna einhverja meðferð sem virkar. Ég hef legið yfir rannsóknum, skoðað lyf, fæðubótarefni, jurtir og margt fleira. Þegar hún var sjö ára fór hún að fá flogaköst sem hún hafði ekki fengið áður. Ég mundi eftir að hafa heyrt um CBD og að það gæti hjálpað, en var samt ragur við að prófa af því að fyrir mér var kannabis bara eiturlyf. En svo fer ég að sjá greinar í vísindatímaritum um þetta efni og þá fór áhuginn að aukast,“ segir Sigurður, sem ákvað að fræða sig meira og endaði svo á að fara til Bandaríkjanna:
„En eftir að hafa ferðast til Bandaríkjanna og kynnst fyrirtæki sem var að framleiða olíuna tók ég með mér flöskur heim og við prófum að gefa Sunnu. Það varð strax mikil breyting og á aðeins nokkrum vikum fækkaði köstunum mikið og á endanum hurfu þau alveg. Á sama tíma byrjaði ég að taka þetta sjálfur líka, af því að ég hafði þróað með mér taugasjúkdóm sjálfur út af álagi. Taugakerfið mitt var komið í rúst og ég var með mikinn svima og sjóntruflanir,“ segir Sigurður, sem þurfti að hætta vinnu sinni sem flugumferðarstjóri, sem hann hafði unnið við í 27 ár. En örlögin gripu í taumana og álagið við að annast langveikt barn tók mikinn toll. Hann klessti á vegg og neyddist til að skilja við ferilinn sem flugumferðarstjóri og leita á önnur mið:
„Ég hafði líklega verið í „fight or flight“ stöðu nánast stanslaust í fleiri fleiri ár og á endanum gaf kerfið sig bara. Ég hef alltaf verið rosalega virkur og vil hafa það þannig og þetta var mjög erfitt tímabil. Að geta ekki gert það sem maður er vanur. En þá þarf maður að finna leiðir og ég gerði allt til þess að ná mér til baka og það tókst á endanum. Eitt af því sem hjálpaði mér mikið var CBD-olían. Þegar ég hafði bæði séð og fundið áhrifin á sjálfum mér og dóttur minni var ekkert annað í stöðunni en að fara að flytja inn CBD olíu og selja hana. Fyrst þegar ég var að skrifa um þessa plöntu, hampinn og olíuna fékk ég ekki eitt læk á póstana mína og fólk hélt líklega að ég væri orðinn rugludallur. En nú hefur orðið mikil vakning í þessu og CBD er núna notuð af fólki á öllum aldri, sem er jafnmisjafnt og það er margt. Sumir nota olíuna til að hjálpa til við svefn, aðrir til að slá á skjálfta vegna Parkinsons eða verki. En ég hef ekki tölu á fólkinu sem hefur komið til mín og fundið mikinn bata af alls kyns kvillum og náð að stórbæta lífsgæði sín. En samt eru reglurnar í kringum þetta ennþá mjög skrýtnar og það má bara selja þetta sem húðvöru, þó að allir viti að þetta sé tekið inn í gegnum munninn líka.“
Sigurður, hefur undanfarin ár barist fyirr því að fá lögleiðingu á CBD, hampi og kannabis í lækningatilgangi. Hann er einn þeirra sem stendur fyrir ráðstefnunni ,,Hampur fyrir framtíðina” sem fram fer næstu helgi í Salnum í Kópavogi:
„Þegar maður upplifir á barninu sínu það sem ég upplifði hugsar maður bara af hverju það var enginn búinn að segja manni frá þessu áður. Öll eigum við einhverja ættingja eða vini sem eru að kljást við einhver veikindi. Viljum við ekki hjálpa þeim og að þau eigi möguleika á að nota náttúrulega lausn ef hún er í boði? Í staðinn fyrir að láta þau fá Oxycontin og dópa þau upp. Að fólk geti byrjað að verða aftur fúnkerandi þegnar í samfélaginu. Það er beinlínis rangt að halda þessu frá fólki ef þetta getur orðið lausn á veikindum eða öðru sem hamlar öllum lífsgæðum. Best væri að lögleiða þetta allt saman eins og gert hefur verið í Möltu, Þýskalandi og fleiri löndum. En þar er ákveðið regluverk sem kemur í veg fyrir að hver sem er geti opnað sjoppu með kannabis. En fólk hefur þá valkost að kljást við sína kvilla með þessum hætti í stað þess að poppa pillur sem hafa yfirleitt miklar aukaverkanir. Það hefur miklu verið tjaldað til í ráðstefnuna núna um helgina og þarna kemur margt af færasta fólki heims til þess að fræða okkur um þessa mögnuðu plöntu. Ég hvet alla til að mæta og ekki síst fólk úr stjórnmálum og heilbrigðisgeiranum.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Sigurð og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is
Hér má svo horfa á það á YouTube: