Þriðjudagur 15. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Anna Kristjáns átti kakkalakka sem gæludýr: „Ég er enn með samviskubit yfir fjöldamorðinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir átti sér kakkalakka sem gæludýr um stutta stund er hún var á sjó fyrir allmörgum árum síðan. Endaði það ævintýri á fjöldamorði, sem bitið hefur samvisku hennar síðan.

Í fyrradag sagði Mannlíf frá dagbókarfærslu vélstjórans Önnu Kristjánsdóttur sem hún birti á Facebook þar sem hún sagði frá reynslu sinni af hinum sérlega óvinsælu kakkalökkum. En þar með var ekki öll sagan sögð því Anna laumar á sögu af kakkalakka sem hún fann um borð í skipi sem hún starfaði á fyrir meira en hálfri öld síðan en hún ákvað að setja hann í krukku og gefa honum að borða. Anna skrifaði söguna af kakkalakkaræktun sinni á sinn einstaka máta og sendi Mannlífi en hana má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

„Kakkalakkasögur.

Það er vissulega meira en hálf öld síðan ég var ráðin sem háseti um borð í íslenskt farskip sem sigldi með íslenskan gæðafisk til Ameríku og kom aftur til baka uppfullt af kakkalökkum. 

Nafn skipsins né útgerð skipta litlu máli, en þegar ég mætti um borð voru flestir áhafnarmeðlimir fjarri. Ég fór með mitt hafurtask um borð og fór svo að svipast um í skipinu. Í borðsal undirmanna var engin lifandi sála að ég hélt og ég ákvað að opna skúffu í borðsalnum. Hún var svört að innan, en sekúndum síðar sá ég eftir að kakkalakkarnir forðuðu sér, að leyndist smjörstykki og eitthvert fleira góðgæti í skúffunni. Skipið var einfaldlega morandi í kakkalökkum.

Næstu mánuðina undum við okkur um borð í nánu samneyti við kakkalakkapláguna, en kvartanir okkar við útgerðina voru hunsaðar að mestu og við héldum áfram að sigla til Ameríku og stundum til Evrópu. Við dunduðum okkur við það á frívöktunum að dæla eitri inn í göt á stokkum til þess eins að sjá kakkalakkana koma hlaupandi út úr næsta gati á stokknum þar sem þeir dóu í hrönnum, en samt var nóg til, því útgerðin fékkst ekki til að svæla út skipið.

- Auglýsing -

Ég man ekki hvort ég hafi verið háseti eða dagmaður í vél á skipinu þegar ég kom einhverntímann út úr klefanum mínum á leiðinni til Ameríku og sá þennan feita kakkalakka skríðandi á miðju þilinu andspænis klefanum mínum. Ég átti stóra glerkrukku sem hafði áður borið hinn dásamlega drykk Floridana sem var tilvalinn í Screwdriver en hún var tóm. Ég skrúfaði lokið af, skellti krukkunni yfir kakkalakkann sem datt ofan í krukkuna og skrúfaði lokið á á nýju. Síðar bætti ég smásykri og smjöri ofan í krukkuna auk þess sem ég pikkaði nokkur göt á lokið til að endurnýja loftið í krukkunni.

Það breytti ekki þeirri staðreynd að tveimur dögum síðar var kakkalakkinn dauður. Krukkan fékk að vera óáreitt og vel skorðuð á borðinu í klefanum mínum næstu dagana, en svo gerðist eitthvað skrýtið. Innihald krukkunnar fór að iða af lífi. Þarna voru komnir tugir eða hundruð ungra kakkalakka sem áttu sér þá einustu ósk af komast út á meðal fólks til að hrella mann og annan.

Við komum til hafnar í Bandaríkjunum og það var mikil umferð um klefann minn. Sumir gestir dáðust að kakkalakkaörtröðinni í krukkunni góðu um leið og aðrir fylltust viðbjóði á þessum nýju gæludýrum mínum. Það var enda von, því kakkalakkarnir voru fljótir að vaxa og verða stórir. 

- Auglýsing -

Við héldum frá Ameríku í átt til Íslands og það var bræla í hafinu. Ég fór að óttast um gæludýrin mín og þegar ég sá að böndin um krukkuna virtust byrja að gefa sig, ákvað ég að kveðja þau, hélt með yfirfulla krukkuna af kakkalökkum út að borðstokk og lét hana falla í hafið.

Ég er enn með samviskubit yfir fjöldamorðinu sem þarna var framið. Síðan er liðin meira en hálf öld.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -