Guðrún Hauksdóttir Schmidt var í forsíðuviðtali Vikunnar í byrjun júní, þar sagði hún sögu sonar síns, Þorbjörns Hauks Liljarssonar Schmidt, en hann bjó á götunni í Reykjavík um 20 ára skeið.
Alvarlegt slys sem hann lenti í sem ungur maður, markaði allt hans líf að sögn Gurru.
Þorbjörn lést í Gistiskýlinu á Lindargötu þann 15. október í fyrra, 46 ára að aldri. Gurra sem býr í Danmörku, kom í heimsókn til Íslands síðastliðið haust og varði einum degi með Þorbirni og félögum hans sem búa á götunni.
Í kjölfar heimsóknarinnar vakti hún athygli á stöðu útigangsmanna á Íslandi. Skömmu eftir viðtalið og heimsóknina fékk hún þær skelfilegu fréttir að sonur hennar væri látinn. Sagði Gurra sögu sonar síns, meðal annars í viðtali við DV.
Öruggt skjól og minningarveggur
Gurra stofnaði minningarsjóðinn Öruggt skjól í minningu sonar síns og hefur haldið áfram að vekja athygli á aðstæðum útigangsmanna. Guðný Pálsdóttir átti þá hugmynd að reisa minningarvegg við gamla Íslandsbankahúsið við Lækjargötu í Reykjavík. Hún og Gurra ásamt fleiri góðum einstaklingum komu veggnum upp á einum degi. Staðurinn var þó ekki varanlegur því á reitnum er að rísa hótel.
Þann 6. september fékk veggurinn varanlegan stað, í Mæðragarðinum í Lækjargötu milli Menntaskólans í Reykjavík og Miðbæjarskólans.
Á vegginn geta þeir sem eru aflögufærir skilið eftir fatnað, matvöru eða annað nýtilegt. Þeir sem eru þurfandi geta því leitað þangað fyrir hlýjan fatnað og annað.
„Við fögnum öllum þeim sem leggja af mörkum hlý föt, matvöru, teppi og annað sem kæmi sér vel fyrir fólkið okkar á götunni og þau sem minna mega sín,“ segir Gurra.
Veggurinn er tvískiptur, hankar öðru megin veggjarins sem snúa út í fallegan garðinn og skiltið er á bakhlið hans. Reykjavíkurborg lagði til vegginn og að sögn Gurru stendur til að byggja yfir hann og jafnvel setja ljós undir þakið.
Það er því alveg tilvalið fyrir þá sem eru aflögufærir um hlýjan fatnað að taka til í skápunum og hengja upp á veggnum, núna þegar kólna fer í veðri.
„Það er ekki komin yfirbygging svo gott væri að setja fatnaðinn í plastpoka, hankarnir eru ekki margir en bót verður ráðin á því. Kannski er einhver þarna úti sem gæti bætt við 4-5 hönkum, tekið með sér borvélina, þetta er tréveggur,“ segir Gurra sem kemur næst til Íslands um jólin. „Ég kveð landið með hlýju í hjarta og með þakklæti.“
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun