Kristján Jósteinsson hélt því fram að kortafyrirtækið Visa hafi kallað sig melludólg árið 1999 en DV greindi frá málinu.
„Ég ætla að kæra krítarkortafyrirtækið Visa því ég sit ekki undir þvi að láta kalla mig melludólg og dópsala í fjölmiðlum eins og forráðamenn þess fyrirtækis hafa gert. Staðreynd málsins er sú að það er fjöldi einstaklinga í þessu þjóðfélagi sem munar ekkert um að láta strauja nokkur hundruð þúsund krónur út af kortinu sínu; þetta eru vellaunaðir menn, verðbréfaguttar og sægreifasynir svo dæmi séu tekin,“ sagði Kristján Jósteinsson við DV en hann var eigandi Club Clinton árið 1999. Staðurinn bauð upp á nektardans og var rekinn í Grjótaþorpinu svokallaða. Krítarkortafyrirtæki höfðu sett takmarkanir á úttektir á Club Clinton og öðrum nektarklúbbi. Fyrirtækin sögðu staðina hafa farið framhjá heimildarkerfi kortafyrirtækjanna.
„Staðirnir sem hér um ræðir eru Clinton og Maxim í Hafnarstræti. Það er ljóst að þessir staðir hafa farið fram hjá heimildakerfi okkar og nýtt sér möguleika sem er þar á,“ sagði Andri Hrólfsson hjá Visa við DV.
„Það hefur enginn borið á okkur að við værum að fara með krítarkortin afsíðis og strauja þau þar. Við sendum afrit af öllum úttektum til kortafyrirtækjanna og þar fara rithandarsérfræðingar yfir nóturnar. Málið er einfaldlega það að gestir okkar eyða svona miklum peningum á stundum. Dýrasta sýning sem ég hef selt var þriggja tíma einkasýning á 150 þúsund krónur og ég man eftir manni sem kom til mín þrjú kvöld í röð og eyddi samtals 800 þúsund krónum,“ sagði Kristján Jósteinsson að lokum en Visa sendi frá sér tilkynningu í kjölfar frétta um þetta mál þar sem því er hafnað að fyrirtækið hafi kallað Kristján dópsala eða melludólg.
Ekkert var fjallað um í fjölmiðlum hvort málið hafi farið fyrir dóm eða niðurstöðu þess.