Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að hætta að nota gervigreindarmyndir af lögregluþjónum á Facebook-síðu sinni. Um yfirsjón hjá starfsmanni embættisins var um að ræða að sögn lögreglustjórans.
Mannlíf fjallaði um gervigreindarmynd sem lögreglan á Suðurnesjum birti á Facebook á dögunum í færslu þar sem minnt var á endurskinsmerki og notkun hjálma. Þar sást vopnaður lögreglumaður í því sem virtist vera stunguvesti, umkringdur börnum sem öll voru með sama andlitið að því er virtist. Þá sást í skólarútu sem virtist svífa í loftinu. Hlaut lögreglan harða gagnrýni sumra í athugasemdakerfinu við færsluna.
Sjá einnig: Lögreglan gagnrýnd fyrir gervigreindarmynd: „Mjög lýsandi fyrir skilning ykkar á eigin starfssviði“
Mannlíf sendi fyrirspurn á lögregluna á Suðurnesjum fyrir helgi um notkun myndarinnar og gagnrýninni vegna hennar en svarið sem barst var stutt og laggott: „Takk fyrir ábendinguna. Ég kem þessu áleiðis til þeirra sem þetta varðar.“
RÚV ræddi við Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra á Suðurnesjum um málið en hann sagði að um yfirsjón starfsmann embættisins væri að ræða.
„Héðan í frá verða notaðar myndir af íslenskum lögreglumönnum, við munum ekki styðjast við gervigreind hvað þetta varðar,“ sagði Úlfar.