Í lok maí árið 1984 varð ungur Íslendingur fyrir fólskulegri líkamsárás á heimili sínu í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Hann hafði fyrr um kvöldið gengið um Strikið þar sem var talsvert um læti.
Tuttugu og þriggja ára Íslendingur fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Kristjaníu í Kaupmannahöfn seint í maí árið 1984 en honum hafði verið veitt þungt höfuðhögg. Íslendingurinn var í bráðri lífshættu samkvæmt Morgunblaðsfrétt um málið en eftir að hann gekkst undir mikla aðgerð á höfði var lífi hans bjargað. Það var unnusta hans sem fann mannninn meðvitundarlausan á heimili þeirra síðdegis á laugardeginum.
Ekki fann blaðamaður Mannlífs frekar upplýsingar um málið og því er ekki hægt að fullyrða um að maðurinn hafi náð fullum bata eftir árásina.
Hér má lesa frétt Morgunblaðsins um málið:
Kaupmannahöfn: Íslendingur fannst höfuðkúpubrotinn eftir grófa árás
23 ÁRA gamall íslendingur var fluttur í bráðri lífshættu í sjúkrahús í Hvidövre í Kaupmannahöfn á laugardagskvöldið eftir að ráðist var á hann aðfaranótt laugardagsins og honum veitt þungt höfuðhögg. Maðurinn fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Kristjaníu.
Hann var höfuðkúpubrotinn og skýrðu dönsk blöð frá því í gær, að hann hefði gengist undir mikla höfuðaðgerð. Blóðköggull, sex sentimetrar í þvermál, sem þrýsti á heila mannsins, var fjarlægður. Hann komst til meðvitundar í gær, en hefur ekkert getað tjáð sig um atvik. Tildrög árásarinnar eru ókunn. Unnusta mannsins fann hann á heimili þeirra síðdegis á laugardag. Engin ummerki um átök voru sjáanleg. Helst er talið að maðurinn hafi verið fluttur í íbúðina eftir líkamsárásina, sem líklega var gerð í Kristjaníu. Maðurinn hafði dvalið tiltölulega stuttan tíma í Danmörku og er engin skýring á árásinni. Hann gekk um Strikið í miðborg Kaupmannahafnar á laugardagskvöldið. Talsverðar róstur voru þar og rakst hann utan í menn, sem slógu til hans þannig að sprakk fyrir á vör. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að mennirnir hafi veitt honum eftirför og áverkana síðar um nóttina. Árásin á manninn er keimlík árásum með stuttu millibili á tvo unga íslendinga í Kaupmannahöfn í fyrra. Þeir hlutu báðir mikla áverka á höfði eftir þung höfuðhögg, en hafa komist til fullrar heilsu. Danska lögreglan rannsakar árásina á manninn, en enginn hefur verið handtekinn.