Ívar Örn Katrínarson gekk um tíma undir nafninu Dr. Mister en hann var meðlimur hljómsveitarinnar Dr. Mister & Mister Handsome sem gerði garðinn frægan á Ísland árið 2006 þegar sveitin gaf út plötuna Dirty Slutty Hooker Money. Með honum í sveitinni var Guðni Rúnar Gunnarsson og nutu lögin Kokaloca og Is It Love? gríðarlegra vinsælda.
Ívar gaf nýlega út bókina Ég ætla djamma þar til ég drepst en bókin inniheldur endurminningar hans og ræddi hann bókina og lífið í viðtali í Síðdegisútvarpinu.
„Ég var búinn að ákveða tíu ára að verða dópisti,“ sagði Ívar Örn upphaf eiturlyfjaneyslu sinnar. „Ég byrjaði 11 ára að nota kannabis og drekka,“ segir hann og telur að tónlist hafi haft áhrif á þessa hluti. „Þetta voru áhrif frá tónlist. Það er enginn sem er að fara að segja mér að tónlist hafi ekki áhrif,“ segir hann. „Ég drakk í mig röng áhrif.“
Kvíðinn eftir skilnað foreldra
„Án þess að átta mig á því var ég rosa kvíðinn sem barn og þarna fann ég skyndilausn á því,“ hélt Ívar áfram. „Rótin á vandanum er kvíðinn sem varð til við skilnað foreldra minna. Ég ákvað tíu ára að hætta að leika mér af því ég ætlaði bara að verða fullorðinn. Það voru alls konar streituvaldar í kringum það. Mér leið betur bæði þegar ég drakk áfengi og þegar ég notaði kannabis. Ég var ekkert að fara að hætta því. Ég var búinn að finna lausn,“ en Ívar er edrú núna þökk sé guði.
„Á leiðinni, í þessari sjálfsskoðun og í örvæntingu minni í að berjast fyrir því að komast út úr þessu og sigrast á þessu risastóra vandamáli í mínu lífi, þá leitaði ég til guðs og ég fékk svar. Ég fékk frið og ég fékk eitthvað sem ég hélt að væri ekki í boði fyrir mig. Ég fékk líf eftir dauðann.“