Verkföll munu að öllum líkindum hefjast í átta skólum á leik, grunn og framhaldsskólastigi og einum tónlistarskóla
Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa átt í samningaviðræðum í nokkurn tíma en eru að sögn semjenda ekki nærri samkomulagi. Kennarar hafa lýst því yfir að þeir vilji laun þeirra verði metin á sama hátt og laun sérfræðinga á almennum markaði, sem eru í kringum milljón á mánuði.
Boðað hefur verið til fundar í dag en ólíklegt þykir að deilan verði leyst á þeim fundi.
Þær aðgerðir sem fara fram í leikskólum eru ótímabundnar. Þeir leikskólar sem um ræðir eru Leikskóli Seltjarnarness, Holt í Reykjanesbæ, Drafnarsteinn í Reykjavík og Ársalir á Sauðárkróki.
Aðgerðirnar í grunnskólum eru tímabundnar til 22. nóvember og eiga þær við um Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri. Þá hefjast einnig verkföll í Fjölbrautaskóla Suðurlands og Tónlistarskóla Ísafjarðar en þau munu standa yfir til 20. desember að öllu óbreyttu.