Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, fyrirlesari, rithöfundur og aktivisti, er búsett í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Á Instagram birtir hún reglulega skrif sem jafnan vekja mikla athygli. Fyrr í vikunni skrifaði hún færslu þar sem hún ámælir þá fjölmiðla sem vísa ítrekað til hennar sem fórnarlambs þegar skrifað er um hana.
„Ég heiti Þórdís Elva og ég er ekki það sem kom fyrir mig,” skrifar hún í upphafi. „Blaðamenn, takið ykkur tak og hættið að draga þá einstaklinga, sem af hugrekki segja sögu sína, niður með því að tilgreina þá sem fórnarlömb.
Hættið að skrifa Þórdís Elva komma fórnarlamb nauðgunar, eins og það sé starfsheiti mitt. Með því að einskorða einstaklinga við ofbeldið sem þeir hafa þolað, er gerendum þeirra gefið vald til að skilgreina tilveru þeirra.”
Þórdís Elva tiltekur sérstaklega blaðamann Sunday Times sem lagðist svo lágt að sleppa því að nafngreina hana og vísaði til hennar sem „nauðgunarfórnarlambs sem deildi sögu sinni ásamt nauðgara hennar árið 2017.”
„Þegar þú gerir einhvern að nafnlausu fórnarlambi, skilgreindan af verstu lífsreynslu hans, þá tekur þú valdið af þeim sem þú átt að þjóna. Þú þaggar niður í þeim sem þú átt að gefa rödd. Þú ýtir þeim, sem sigruðust á skömminni, aftur undir nafnleynd.
Ég er Þórdís Elva.
Ég er ekki ofbeldið sem ég mátti þola.
Ég er hugrekkið sem ég hef veitt innblástur.
Gleðin sem ég hef deilt,
Vonin sem ég hef kveikt.
Þú færð ekki að endurskrifa mína sögu.
Þú færð ekki að deyfa ljós mitt.
Þú færð ekki að takmarka tilveru mína.
En það sem er mikilvægast, þú færð aldrei að halda mér, eða breytingunni sem ég stend fyrir, niðri.
Félagar sem lifðu af og vinir, berum höfuðið hátt og vitum að:
Við munum skrifa söguna.
Í okkar nafni.