Verkfall kennara í níu skólum hófst á miðnætti í nótt. Kennarar í fjórum skólum til viðbótar munu leggja niður störf í nóvember ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Semjist ekki hefst verkfall í Menntaskólanum í Reykjavík 11. nóvember. Þann 25. nóvember verður verkfall í Árbæjarskóla í Reykjavík, Garðaskóla í Garðabæ og Heiðarskóla í Reykjanesbæ.
Ekki hefur komið fram formleg kröfugerð kennara en krafan er sú að laun þeirra verði í samræmi við þau kjör sem sérfræðingar hafa á almennum markaði. Samkvæmt því vilja kennarar fá milljón krónur í mánaðarlaun. Samninganefnd sveitarfélaganna hefur talið kröfuna óásættanlega. Sveitarfélögin benda á að taka verði tillit til annarra kjara kennara en launanna. Þá þykir ljóst að launahækkanir kennara muni leiða til höfungahlaups þar sem aðrar stéttir muni sækja á um svipaðar kjarabætur. Verfallsboðunin fór fyrir félagsdóm sem kvað upp úr um að boðunin væri lögleg.
Gagnrýnt hefur verið að um sé að ræða skæruverkföll sem bitna á litlum hópi nemenda. Þessi baráttutækni ræðst af því að dýrt yrði fyrir félög kennara að halda út allsherjarverkfalli. Þessi aðferð er hagstæð fyrir verkfallssjóð félaganna.
Verkföllin sem hófust á miðnætti eru sum tímabundin. Þá er talið mögulegt að skipt verði út skólum í verkfalli og átökin verði framlengd eins og þurfa þykir.