Menningarhúsið Hof býður upp á íslenskt hljómleikabíó þar sem teiknimyndin LÓI – Þú flýgur aldrei einn er sýnd við lifandi flutning Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, hljómsveitarinnar sem hljóðritaði tónlist Atla Örvarssonar við teiknimyndina.
„Þetta tónleikabíó er fyrir alla forvitna krakka sem elska tónlist, kvikmyndir og tölvuleiki og vilja sjá hvernig ævintýrin eru sköpuð,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
Teiknimyndin LÓI – Þú flýgur aldrei einn hefur verið sýnd um allan heim við góðan orðstýr. „Sinfónísk tónlist spilar óvenju mikinn þátt í myndinni og tónlistin hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Þetta er svo gríðarlega falleg, rómantísk og á stundum dramatísk tónlist,“ segir Þorvaldur Bjarni.
Hann segir unga krakka vel geta setið undir heilum sinfóníutónleikum. „Hvort þeir geta og sérstaklega ef það er líka spennandi bíó að horfa á um leið,“ segir hann og játar því að svona hljómleikabíó sé tilvalið til að kveikja á áhuga ungra krakka á klassíkinni. „Algjörlega og einnig til að vekja áhuga forvitinna heila um hvernig tónlist verður til og hvernig hún ratar í leikinn í símanum þínum. Það er svo mikill áhugi á hljómleikabíói á íslandi í dag eins og sjá má á samskonar tónleikum við Lord of the Rings myndirnar og Star Wars.“
Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson hljómsveitinni Hjaltalín verður sérstakur gestur tónleikabíósins. Högni er spenntur fyrir verkefninu og segir teiknimyndina dásamlega kvikmynd. „Og ekki skemmir sígilda sagan fyrir sem snertir sakleysið í manni,“ segir Högni.
Hljómleikabíóið fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 22. september. Miðasala er í fullum gangi á mak.is en verkefnið er samvinna Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, RIFF, Saga Film og GunHill.