Áfram bætist í hóp barna sem liggja á gjörgæslu vegna E.coli-sýkingar en þau eru nú orðin fimm talsins. Þá liggja fimm önnur börn inni á Barnaspítala Hringsins. Smitið kom upp á leikskólanum Mánagarði fyrir rúmri viku en rúmlega 40 börn en ekki nein börn utan leikskólans hafa smitast. Ennþá er verið að bíða eftir niðurstöðu úr sýnum frá starfsmönnum leikskólans. Líklegt þykir að smituð matvæli séu sökudólgurinn í málinu og þá sérstaklega nautahakk sem boðið var upp á í leikskólanum en niðurstaða úr sýnum sem tekin voru úr matvælunum eru væntanleg á næstu dögum. Bakterían gengur ekki auðveldlega milli manna en hún smitast með saur í munn. Mögulegt er að þeir sem hafi aðstoðað börnin á salerni séu útsettir fyrir smit sem og fólk sem býr á sama heimili og börnin. Ekki hefur neinn utan leikskólans verið greindur með bakteríu.