Heimildarmyndin House of Cardin, sem fjallar um franska fatahönnuðinn Pierre Cardin, var frumsýnd á kvikmyndahátínni í Feneyjum síðastliðinn föstudag. Cardin sjálfur var viðstaddur og hlaut hann og myndin standandi lófaklapp gesta í lok sýningarinnar.
Margrét Hrafnsdóttir framleiðandi kemur að gerð myndarinnar, en margar stjörnur úr tískuheiminum koma fram í myndinni og má þar nefna fyrirsætuna Naomi Campbell og fatahönnuðinn Jean-Paul Gaultier. Listamenn, eins og leikkonan Sharon Stone og söngvarinn Alice Cooper koma einnig fram.
„Það er búið að vera einstaklega skemmtilegt að vinna að þessari mynd um Pierre Cardin, enda maðurinn goðsögn í lifanda lífi og lítið mál að fá til liðs við okkur aðrar goðsagnir til að fjalla um hann,“ segir Margrét, en hún er ein af tíu framleiðendum myndarinnar.
Þó að Pierre Cardin sé ávallt nefndur sem franskur fatahönnuður, þá fæddist hann í bænum Treviso, skammt frá Feneyjum og var nefndur Pietro. Þegar hann var tveggja ára flúði fjölskyldan undan fasisma til Frakklands.
Cardin, sem er orðinn 97 ára, lét háan aldur og 27 klukkustunda lestarferðalag ekki aftra sér frá því að vera viðstaddur sýninguna. Og að henni lokinni gaf hann sér góðan tíma í að tala við blaðamenn og sitja fyrir á myndum með þeim sem vildu.
„Mér líkar vel að sjá mig á skjánum, ég gleymi að ég var ungur,“ sagði hann brosandi, aðspurður um hvernig honum hefði líkað myndin. „Það kom margt fram sem ég hef ekki séð áður, myndin hreyfði við mér.“
Myndin verður sýnd hér á landi í Bíó Paradís á kvikmyndahátiðinni RIFF. Frumsýning er 29. september kl. 19 og einnig verða sýningar 1. október kl. 17 og 6. október kl. 15.