Hinn 19 ára Frakki, Michael Leduc, kom til Íslands í september byrjun árið 1997 og ætlaði sér að ferðast um landið í rútu, var með 20.000 krónur í gjaldeyri. Þann 6. september steig hann úr rútu við Hvolsvöll en virtist svo hverfa af yfirborði jarðar.
Hinn ungi ferðamaður, sem búsettur var í París, hafði keypt sér rútumiða sem gerði honum kleyft að ferðast um Ísland frá 3. til 16. september en þann sjötta september sást hann fara úr rútunni við Hvolfsvöll en talið var að hann hefði ætlað sér að vaða yfir Markarfljót til að komast í Þórsmörk. Þrátt fyrir gríðarmikla leit sem meðal annars fól í sér notkun svifnökkva, en þetta var fyrir tíma flygilda (e. drones), fannst hvorki tangur né tetur af Leduc. Að minnsta kosti ekki fyrr en hálfu ári síðar.
Tíminn Akureyri fjallaði um hvarf Leduc á sínum tíma:
Lýst eftir Frakka
Leitin að Michael Leduc, 19 ára gömlum frönskum ferðamanni, hafði enn engan árangur borið í gærkvöld. Síðast var vitað um ferðir hans með áætlunarbíl frá Reykjavík til Hvolsvallar 6. september sl. Þar fór hann úr bílnum og er ekkert vitað um ferðir hans eftir það. Michael Leduc er með dökkt stutt hár, 1.82 cm á hæð, grannvaxinn og gæti verið klæddur í rauða úlpu og brúna gönguskó. Hann er með grágrænan bakpoka og dökkgrænt tjald.
Dagblaðið Vísir sagði frá þeirri miklu leit sem ráðist var í til að finna hinn unga Frakka en leitað var í og við Markarfljót:
Franski ferðamaðurinn: Leitað í og við Markarfljót
Slysavarnasveitirnar Dagrenning Hvolsvelli og Björg á Eyrarbakka hófu leit að franska ferðamanninum Michael Leduc eftir hádegi í gær. Leitin hafði engan árangur borið þegar blaðið fór í prentun. Leitarsvæðið er takmarkað við Markarfljót og bakka þess. Svifnökkvi var notaður við leitina gær en hann má nota bæði á láði og legi. Að sögn Jóns Hermannssonar, svæðisstjóra slysavarnasveitanna, höfðu engar vísbendingar fundist þegar DV ræddi við hann. Var gert ráð fyrir að leitað yrði fram í myrkur gærkvöld. í gær hafði því ekkert spurst til franska ferðamannsins frá því að hann yfirgaf rútuna á Hvolsvelli 6. september sl., utan að ökumaður einn telur sig hafa séð hann standa úti vegkanti um 2-300 metra frá Hvolsvelli þann sama dag. Hafi hann verið að reyna að stöðva bíla sem voru austurleið. Í nótt ætluðu hjálparsveitarmenn úr Hafnarfirði að vera með sporhund á svæðinu en það þótti ekki líklegt til árangurs í gær þar sem umferð var mikil. Í morgun ætluðu allar björgunarsveitir í Rangárvallasýslu að hefja leit. Var fyrirhugað að auka umfang leitarinnar verulega og nota m.a. þyrlu Landhelgisgæslunnar ef veður og aðstæður leyfðu. Þá var fyrirhugað að nota svokallaða víðavangs leitarhunda við leitina.
Dagblaðið Vísir sagði frá því að þrátt fyrir að maður teldi sig hafa tekið Leduc upp í bíl sinn þann 9. september á Fáskrúðsfirði og hafa ekið honum á Reyðarfjörð, taldi yfirlögregluþjónninn Jónas Hallsson ólíklegt að hann hefði farið austur.
Franski ferðamaðurinn: Ólíklegt að hann hafi farið austur
„Það sem margir sem telja sig hafa séð Michael Leduc, meira að segja í rútubfl frá Akureyri. En hann var á tímamiða og sá miði hefur ekki verið notaður nema austur á Hvolsvöll. Þá hefur hann ekkert notað visa-kortið sitt, nema til úttektar á 20.000 krónum í gjaldeyri. Þetta segir okkur að það sé ólíklegt að hann hafi farið austur á land,“ sagði Jónas Hallsson yfirlögregluþjónn um franska ferðamanninn Michael Leduc sem leitað hefur verið að undanförnu. Jónas sagði nokkuð ljóst að Frakkinn hefði ætlað sér að skoða Landmannalaugar, Þórsmörk, Skaftafell og Mývatn. Þegar Þórsmerkurkortið sé skoðað geti ókunnugir hæglega villst á þessum slóðum og talið eðlilegast að fara Fljótshlíðina. Sá sem fari þá leiö komi síðan að Markarfljóti sem sé hættulegt yfirferðar. Eins og fram kom í DV í gær telur Jóhann Pétur Halldórsson að hann hafi tekið ferðamanninn upp í bíl sinn 9. sept. sl. á Fáskrúðsfirði. Hann kveðst hafa ekið manninum á Reyðarfjörð síðdegis þann dag. Hefði honum helst skilist að maðurinn væri á leið til Norðfjarðar, því hann hefði spurt um ferðir áætlunarbíls þangað. Aðspurður kvaðst maðurinn hafa komið austur daginn áður (þ.e. mánudaginn 8. sept.) Að sögn Jónasar Hallssonar verður leitað á fjörum í ósum Markarfljóts þegar-veður leyfir.
Þann 1. október 1997 sagði Morgunblaðið frá því að leitinni yrði líklegast hætt en ekkert hafði þá spurst til Leduc frá 6. september. Enn þann daginn í dag hafa líkamsleifar hins unga ferðalangs ekki fundist.
Leitinni líklega hætt
LEIT að Michael Leduc, 19 ára Frakka sem ekkert hefur spurst til frá 6. september, verður að líkindum hætt í dag. Frakkinn átti rútumiða, sem hann gat notað til að ferðast um landið frá 3. til 16. september, en nýtti aðeins ferðina til Hvolsvallar. Leitarmenn hafa miðað við að hann hafi gengið inn Fljótshlíð og ætlað að vaða Markarfljót til að komast í Þórsmörk. Jónas Hallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, sagði að fólk víða um land teldi sig hafa séð Michael Leduc, en ekki hefði verið hægt að staðfesta þær frásagnir. Í dag, miðvikudag, yrði farið enn á ný yfir öll gögn málsins, en að því loknu yrði leit líklega hætt.
Unnusta Frakkans skrifaði fallega kveðju til hans sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í nóvember 1997, í þýðingu Ásdísar Magnúsdóttur:
MARIANNE PIDOUX TIL MICHAELS Ásdís Magnúsdóttir þýddi
Blíði vinur, Fyrst tókst þú þér ferð á hendur, fyrst leið þín virðist ekki liggja til baka, lærir buguð sál mín tónstiga hinnar sönnu þjáningar. Þetta litla þráláta stef, sem minningarnar búa til, segir mér, segir mér aftur og segir mér enn aftur að við lifum ekki lengur undir sama himni. Í seinasta skipti legg ég höfuð mitt í kjöltu þér, ég andvarpa djúpt og í draumi gef ég þér seinustu ráðin, ferð þín er svo löng. Allt hér minnir á hamingju okkar og á hverjum morgni gæli ég við bros þitt, alltaf eins, bros þitt rólegt og kalt eins og strendur íslands. Höfundurinn er unnusta unga Frakkans, Michael Leduc, sem hvarf á Íslandi í september.
Það var svo hálfu ári síðar, 28. apríl 1998, að lík fannst á Krossáraurum neðan við Bása í Þórsmörk. Var þar um hinn unga Michael Leduc að ræða.
Þórsmörk Líkfundur við Krossá
LÍK fannst á Krossáraurum neðan við Bása í Þórsmörk í gær. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelii er talið líklegt að þar sé kominn fram Frakkinn, sem leitað var að í haust. Um páskana fannst bakpoki við ána, sem gat átt við lýsingu á bakpoka Frakkans en pokinn var tómur. Um helgina leitaði lögreglan á Hvolsvelli ásamt björgunarsveitinni á Hvolsvelli við ána og fannst þá svefnpoki og tjald. Það var svo í gær að þyrla var fengin til að fljúga yfir svæðið og þá fannst líkið á Krosssáraurum í uppþornuðum farvegi.