Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Opnar sig um rasísk ummæli Sigurðar Inga: „Hann sveik með þessu samkomulagið sem við gerðum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vigdís Häsler tjáir sig um brottreksturinn úr starfi framkvæmdarstjóra Bændasamtakanna í stóru viðtali í nýjasta blaði Heimildarinnar en hún segir að Framsóknarflokkurinn hafi ræst kosningavélina til að koma nýjum formanni að. Þá tjáir hún sig einnig um þau rasísku ummæli sem Sigurður Ingi Jóhannsson hafði um hana.

Ummælin

Fram kemur í viðtalinu að það sem mest reyndi á Vigdísi og fjölskyldu hennar þegar hún var framkvæmdarstjóri Bændasamtakanna hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hún hafði þá verið framkvæmdarstjóri samtakanna í rúmt ár en boð var haldið í tengslum við Búnaðarþing í mars 2022 og var Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og þáverandi Innanríkisráðherra, boðið. Hafði starfsfólk Bændasamtakanna óskað eftir því að Sigurður Ingi og fleiri tækju þátt í myndatöku. Spurði Sigurður Ingi þá hvort það ætti ekki að taka mynd af honum með „þeirri svörtu“. Ummælin rötuðu í fjölmiðla og næstu daga varð mikið fjölmiðlafár en á mánudeginu sendi Vigdís frá sér yfirlýsingu á Facebook, í ljósi þess að aðstoðarkona innanríkisráðherrans hefði þverneitað því að Sigurður Ingi hefði látið slík orð út úr sér, hún hefði staðið við hlið hans í myndatökunni. „Ég ætlaði að hundsa þetta og Sigurð Inga að eilífu. En ég gat ekki setið þegjandi meðan logið var upp á mig. Þess vegna steig ég inn í umræðuna,“ segir Vigdís í viðtali Heimildarinnar.

Í yfirlýsingunni sagði Vigdís meðal annars: „Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna.“ Þá skrifaði hún einnig: „Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“

Afsökunarbeiðnin

Sigurður Ingi sendi frá sér afsökunarbeiðni seinna þann mánudag þar sem hann sagði: „Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi  síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar.“ Fáeinum dögum síðar hittust Vigdís og Sigurður Ingi og skrifaði hún í kjölfarið færslu á Facebook um að ráðherrann hefði beðist einlæglega afsökunnar sem hún hefði meðtekið og að málinu væru nú lokið af hennar hálfu. Það reyndist hins vegar ekki rétt.

- Auglýsing -

„Sleginn og dapur“

Þegar málið kom upp var stutt í kosningar en hálfum mánuði fyrir þær var málið tekið upp á Alþingi, þar sem þingkona Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir bað Sigurð Inga að „gera grein fyrir stöðu sinni hér í þingsal og gagnvart þjóðinni“ með tilliti til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Svar Sigurðar Inga olli mörgum vonbrigðum en hann sagði þingkonu vísa til atviks „sem ég hef lýst sem óheppilegu, sem ég hef sjálfur, bæði opinberlega og gagnvart viðkomandi, beðist afsökunar á, afsökunarbeiðnin móttekin og aðilar verið sammála um að tala ekki um meir. Ég mun virða það.“ Bætti hann svo við: „Það er hins vegar þungbært og þungbærara en ég bjóst við, eftir að hafa verið svona lengi í stjórnmálum, að upplifa það dag eftir dag hér í þinginu í tiltekinn tíma af tilteknum stjórnmálamönnum og af einstökum fjölmiðlum að vera borinn þungum sökum um eitthvað allt annað. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað í mínu fari persónulega eða eitthvað sem stjórnmálamaðurinn Sigurður Ingi hefur staðið fyrir sem bendir til að þetta sé svona. Eða er það bara vegna þess að það eru sveitarstjórnarkosningar eftir hálfan mánuð?“

Einn af þeim sem voru ósáttir við orð Sigurðar Inga var Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. Sagðist hann bæði „sleginn og dapur“ yfir svörum innanríkisráðherra um mál sem hefði skekið þjóðina og tugþúsundum Íslendinga svíði undan með beinum hætti.

- Auglýsing -

Sigmar sagði: „Þegar hæstvirtur innviðaráðherra fær tækifæri til að enduróma afsökunarbeiðni sína til þessa risastóra hóps úr ræðustól Alþingis þá talar hann um sveitarstjórnarkosningarnar. Þá talar hann um að þeir sem gagnrýndu orð hans, kölluðu eftir pólitískri ábyrgð, kölluðu eftir virðingu gagnvart fólki sem er af öðrum uppruna – þá segir hann að við höfum verið að reyna að klekkja á Einari Þorsteinssyni í Reykjavík.“

Sagði Sigmar einnig að Sigurður Ingi hefði gert lítið úr málinu, þegar hann hafi fengið tækifæri til að endurtaka afsökunarbeiðni sína. „Hann hætti að vera gerandi, hann gerði sjálfan sig að þolanda. Hann sagði að allir þeir sem hafa verið að gagnrýna hann í þessum sal, og hafa þar með endurómað gagnrýni í samfélaginu, séu að beita einhverri pólitík. Hann tók afsökunarbeiðni sína til baka.“

Vigdís segir Sigurð Inga hafa svikið samkomulag þeirra á milli þegar hann fór að blanda kosningum inn í málið og hafi í raun tekið afsökunarbeiðnina til baka. „Hann sveik með þessu samkomulagið sem við gerðum.“

Hægt er að lesa allt viðtalið á Heimildinni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -