Þrjú börn sem smituðust af E.coli á leikskólanum Mánagarði eru nú á gjörgæslu og er eitt af þeim í öndunarvél. Þá eru sjö önnur börn sem liggja inni á almennri deild eftir að hafa smitast.
MAST greindi frá því í gær að niðurstaða úr rannsókn þeirra væri á þá leið að krakkarnir hefðu borðað blandað hakk sem keypt var frá Kjarnafæði en að eldun sýkta hakksins á leikskólanum hafi ekki verið fullnægjandi. Matráður skólans hefur sagt starfi sínu lausu og þá er leikskólinn ennþá lokaður.
Bjartsýni ríkir hjá læknum að þetta sé að þokast í rétt átt en þetta muni mögulega hafa neikvæðar afleiðingar fyrir börnin sem smituðust á næstunni
„Það er nú talsvert í það að þessu verði öllu lokið. Það má alveg gera ráð fyrir að það verði tvær, þrjár vikur í að þessi börn verði öll útskrifuð. Ég held að við getum alveg gert ráð fyrir því,“ sagði Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir á barnaspítalanum, við Vísi um málið.