Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við sérsveitina yfirbuguði konu sem hélt á hnífi og litlu barni sem var í ójafnvægi fyrir utan hús í Sólheimum í Reykjavík en lögreglan greinir frá þessu í tilkynningu. Óttast var að konan myndi vinna barninu eða sér skaða. „Fjöldi viðbragðsaðila var kallaður á vettvang, meðal annars samningamenn frá embætti ríkislögreglustjóra, en eftir töluverðar samningaviðræður tókst loks að yfirbuga konuna, en hvorki hana né barnið sakaði í aðgerðum lögreglunnar,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu. Konunni var komið undir læknishendur eftir að hún var yfirbuguð og tóku barnaverndaryfirvöld við barninu. Ekki hefur verið greint frá því hvort konan sé móðir barnsins eða tengist því á einhvern hátt.