Samningi um rekstur hjúkrunarheimilisins Sæborgar hefur verið sagt upp af hálfu Skagastrandar og Húnabyggðar en Sæborg er staðsett á Skagaströnd. Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, segir þetta hafa legið lengi í loftinu en hallarekstur hefur verið á Sæborg í mörg ár.
„Við hófum viðræður við ráðuneytið og Sjúkratryggingar fyrir um tveimur árum síðan. Við höfum leitað leiða til að reyna að lækka rekstrarkostnað við heimilið. En launakostnaður er það hár að það er af litlu af taka“, sagði Alexandra við RÚV um málið en á hjúkrunarheimilinu eru tíu hjúkrunarrými og stöðugildi starfsmanna 16 talsins.
Að sögn hennar hafa verið greiddar tugi milljóna með rekstri Sæborgar á undanförnum árum og að lítil sveitarfélög ráði ekki við slíkt. Stjórnvöld þurfi að hjálpa til í þeim málum.
„Við eigum von á því að ríkið taki yfir reksturinn. Það er algengast að heilbrigðisstofnun í viðkomandi umdæmi taki við. Samtalið er ekki komið á það stig en við svona væntum þess að það verði líklegasta niðurstaðan,“ sagði Alexandra að lokum.