Nú er ljóst að Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna en langflestir Íslendingar, í kringum 90% samkvæmt könnunum, vildu sjá Kamala Harris, núverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem sigurvegara frekar en Trump. Einn Íslendingur sem óskaði Trump til hamingju með sigurinn er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands.
„Ég óska Donald Trump til hamingju með kosningarnar og þetta virðist vera nokkuð afgerandi niðurstaða,“ sagði ráðherrann við mbl.is í gær.
„Ég hlakka til áframhaldandi náins samstarfs á þeim sviðum sem við vinnum saman á eins og öryggis- og varnarmálum. Bandaríkin eru okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður og sömuleiðis á alþjóðasviðinu en svo kemur í ljós hvort það verði einhverjar sérstakar breytingar þar. Við fylgjumst bara með því.“
Ljóst er þó að Þórdís hefur sennilega blendnar tilfinningar gagnvart sigri Trump miðað við tíst hennar fyrir níu árum síðan áður en hann varð forseti Bandaríkjanna í fyrsta skipti en skjáskot af gömlu tísti hennar fer eins og eldur um sinu á netinu núna.
Einhverjir hafa kastað fram þeirri kenningu að tístið sé falsað en leiti fólk að því á Google virðist allt benda til þess að þetta sé ekki falsað. Þórdís hefur þó eytt tístinu núna.
Ekki liggur fyrir hvort að forsetinn tilvonandi hafi vitneskju um tíst utanríkisráðherra Íslands en Trump hefur ítrekað farið í mál við fólk fyrir minni sakir.