Fimmtudagur 7. nóvember, 2024
8.8 C
Reykjavik

Villi Valli er látinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn þekktasti tónlistarmaður Vestfjarða, Villi Valli, er látinn, 94 ára að aldri.

Blessuð sé minning hans.

Villi Valli, sem hét fullu nafni Vilberg Valdal Vilbergsson fæddist á Flateyri 26. maí árið 1930 og bjó mest alla ævi fyrir vestan, lengst af á Ísafirði, þar sem hann starfaði sem hárskeri. Samkvæmt vefsíðunni Glatkistan.is kynntist Villi Valli tónlistinni snemma á æskuárunum á Flateyri en hann var farinn að fikta við harmoníum orgel í kringum fimm ára aldurinn. Þegar hann var aðeins tíu ára gamall skemmti hann á barnaballi stúku sem hann var í. Á sama tíma var hann einnig orðinn fær á harmonikkuna, en hann var sjálfnema á bæði hljóðfærin.

Þegar Villi Valli var einungis 12 ára gamall lék hann fyrst á dansleikjum vestra en notaðist þá við harmonikku sem hann leigði en sjálfur eignaðist hann nikku 14 ára gamall. Á sínum yngri árum lék hann á fjölmörgum böllum og spilaði þá ýmist einn eða með öðrum nikkuleikara, áður en hann fór að spila í hljómsveitum.

Þegar Villi Valli var átján ára vann hann í síld í Djúpuvík á Ströndum en þar kenndi Guðmundur Norðdahl, vinnufélagi hans, honum að lesa nótur. Guðmundur, sem sjálfur var klarinettuleikari, kenndi Villa Valla einnig að spila á saxafón. Stuttu síðan stofnaði hann sína fyrstu hljómsveit heima á Flateyri en hún hét S.V.O. tríóið sem samanstóð af tveimur harmonikkuleikurum og trymbli en Villi Valli notaði þó frekar píanó þegar það var í boði. Tríóið lék næstu tvö sumur en á veturna lék hann með M.G. tríóinu á Ísafirði.

Árið 1950 fór Villi Valli til Reykjavíkur til að reyna að komast í iðnnám, sem mistókst. Hóf hann þá störf í fiskvinnslu en starfaði einnig í lausamennsku í tónlistinni. Lék hann í borginni með ýmsum hljómsveitum um helgar. Þá um vorið snéri hann aftur vestur á Ísafjörð þar sem hann hóf nám í hárskurði. Um svipað leyti hóf hann að leika með Lúðrasveit Ísafjarðar, sem og að leika með hinum og þessum hljómsveitum, flestum í hans nafni. Næstu árin starfrækti Villi Valli fjöldan allan af hljómsveitum, af ýmsum stærðum og gerðum en þær hétu nöfnum á borð við V.V. sextett, V.V. tríó, V.V & Barði og fleira. Þá tók hann við stjórn lúðrasveitarinnar árið 1959 þegar stjórnandi hennar, hárskerinn Harry Herlufsen flutti úr bænum. Keypti Villi Valli að auki rakarastofu Harrys sem hann starfrækti allt þar til hann fór á eftirlaun.

V.V. & Barði árið 1962. Hljómsveitarmeðlimir eru, frá vinstri í aftari röð: Barði Ólafsson, Magnús Reynir Guðmundsson, Þórarinn Gíslason og Ólafur Kristjánsson. f fremri röð eru Guðmundur Marinósson, Vilberg Vilbergsson og Ólafur Karvel Pálsson.

Lúðrasveitina stjórnaði Villi Valli til ársins 1969 en lék áfram með hinum ýmsu hljómsceitum, meðal annars Sexmenn, Saltfisksveit Villa Valla og Villi, Gunni og Haukur. Árið 2000, þegar hann varð sjötugur, gaf Villi Valli út plötu sem bar nafn hans en þar var að finna fjórtán lög eftir hann en fjöldinn allur af landsþekktum tónlistarmönnum komu að gerð hennar, undir stjórn Eyþórs Gunnarssonar.

- Auglýsing -

Átta árum síðar, 2008, kom út önnur plata í hans nafni sem hlaut nafnið Í tímans rás og var gefin út af 12 tónum. Þar lögðu honum margir lið, bæði vestfirskir tónlistarmenn sem og sunnlenskir, á borð við Flís-tríóið. Barnabarn Villa Valla, Viðar Hákon Gíslason, sem leikið hefur með hljómsveitum á borð við Trabant, hafði veg og vanda að verkefninu en um var að ræða djassskotna tónlist. Hlaut platan glimmrandi dóma.

Árið 2018 var Villi Valli gerður að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -