Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er í forsíðuviðtali Mannlífs þessa vikuna. Þegar Eyþór var beðinn um að lýsa eigin karakter vefst honum tunga um tönn.
„Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ segir hann. „Ég held ég sé frekar rólegur, get alveg verið einn og það er erfitt að rífast við mig því ég rífst ekki á móti. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu leiðinlegur í pólitíkinni.“
Ef þú heldur áfram og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum verður þú væntanlega borgarstjóri. Hver yrði fyrsta breytingin sem Reykvíkingar yrðu varir við?
„Ég myndi breyta stjórnkerfinu,“ segir Eyþór ákveðinn. „Það er orðið allt of stórt og það þarf að einfalda það þannig að það verði auðveldara að klára mál. Núna tekur stundum mörg ár að klára lítil skipulagsmál og það voru þrjú hundruð stýrihópar og nefndir að vinna að því og enginn vissi hvað hinar nefndirnar voru að gera þannig að það var stofnuð önnur nefnd til að fara yfir þetta og sú nefnd komst að því að það væri best að skipa þrjár nefndir til að fara í saumana á þessu. Þetta er svipað og ef þú værir með tölvuna þína fyrir framan þig og lyklaborðið væri með tíu sinnum fleiri tökkum en það er, væri það betra eða verra? Það væri verra vegna þess að flækjustigið væri svo mikið, það er mun betra að hafa hlutina einfalda og kerfið á að klára mál en ekki flækja þau meira.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á man.is hér.