Gunnar Smári Egilsson segir aðalfrétt vikunnar, hlerunarmál Jóns Gunnarssonar, ekki hafa verið nein frétt, því allir viti að Sjálfstæðisflokkurinn er spilltur.
Í færslu sem Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson skrifaði á Facebook í gær nefnir hann annað spillingarmál sem tengist Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Minnir hann á Klaustursmálið þarsem Gunnar Bragi Sveinsson sagði frá loforði Bjarna um sendiherrastöðu gegn því að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Að lokum segir Gunnar Smári að besta leiðin til að breyta Alþingi sé að kjósa Sósíalistaflokkinn.
Hér má lesa færsluna í heild sinni:
„Frétt gærdagsins var náttúrlega engin frétt: Sjálfstæðisflokkurinn er spilltur. Og Bjarni Benediktsson gerspilltur. Hann er aðili að svo til öllum spillingarmálum undanfarinna ára. Meira að segja Klausturmálinu þar sem kom fram í fylleríisrausi Miðflokksmanna að Bjarni hafði lofað Gunnari Braga Sveinssyni sendiherrastöðu gegn því að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Nú hefur komið í ljós að Bjarni keypti stuðning Jóns Gunnarssonar við Sjálfstæðisflokkinn með hvalveiðileyfi til fimm ára. Það verður að halda þessu fólki frá öllum völdum. Við þurfum nauðsynlega að breyta Alþingi. Besta leiðin til þess er að kjósa Sósíalistaflokkinn, eina flokkinn sem Sjálfstæðisflokkurinn óttast í raun.“