Stjórnvöld hyggjast setja hagsmunavörslu frekari skorður. Umsvifamestu hagsmunasamtök landsins telja hins vegar ekki þörf á slíku.
Frá því rétt fyrir aldamót hafa Samtök atvinnulífsins staðið vörð um hagsmuni atvinnurekenda í íslensku samfélagi. Umsvif samtakanna eru mikil en í dag eru sex stór hagsmunasamtök með aðild að samtökunum og yfir 2.000 fyrirtæki. Þá eru samtökin með 180 fulltrúa í um hundrað nefndum og stjórnum.
Samtökin hafa fengið flestar umsagnarbeiðnir frá Alþingi af öllum samtökum, samböndum og félögum á yfirstandi þingi, eða alls 161 beiðni. Rekstur samtakanna hefur vaxið í krónum talið á síðustu árum og í fyrra nam heildarvelta félagsins rúmlega 720 milljónum króna.
Stjórnvöld hafa áform um að setja hagsmunavörslu hér á landi frekari skorður en afar takmarkaðar reglur eru um slíkt. Forsætisráðuneytið hyggst leggja til að hagsmunaverðir sem eiga samskipti við handahafa ríkisvaldsins verði gert að skrá sig sem slíka. Auk þess er fyrirhugað að ráðherrar, aðstoðarmenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar, geti ekki í tiltekinn tíma eftir að opinberu starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hagsmunaverð
Samtök Atvinnulífsins hafa gagnrýnt þessi áform stjórnvalda en samtökin telja að slík takmörkun á starfsvali geti ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið. Enn fremur telja samtökin opinbera skráningu hagsmunavarða óþarfa enda sé hér á landi í flestum tilvikum ljóst hvaða samtökum hagsmunaverðir þjóna.
Hægt er að lesa fréttaskýringuna í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.