Þrír aðilar gista í fangaklefa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Í heildina voru 61 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á milli 17:00 og 05:00 í nótt. Hér má sjá brot af þeim málum.
Boðflenna í hús í Laugardalnum var vísað út af lögreglu. Í hverfi 104 missti ökumaður stjórn á bíl sínum og ók á kyrrstæða bifreið. Var ökumaðurinn fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.
Þjófur var handtekinn þar sem hann var að brjótast inn í bifreiðar í Laugardalnum en maðurinn reyndist einnig vera með fíkniefni meðferðis er hann var handtekinn. Kom síðan í ljós að maðurinn var þar að auki eftirlýstur. Gisti kauðinn í fangaklefa.
Í miðborg Reykjavíkur var ekið á gangangi vegfaranda en hlaut hann minniháttar meiðsli.
Í Hafnarfirði var ökumaður handtekinn þar sem hann var undir áhrifum fíkniefna. Var hann einnig sviptur ökuréttindum en hann hafði framvísað fölsuðu ökuskírteini.
Lögreglan í Kópavogi barst tilkynning um aðila sem var að reyna að komast inn í íbúð. Reyndist einstaklingurinn vera það stjörnufullur að hann ruglaðist á íbúðum. Aðstoðaði lögreglan manninn til síns heima.
Í hverfi 110 var aðili handtekinn, grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Þá gat hann ekki framvísað skilríkjum og er hann grunaður um ólöglega dvöl hér á landi. Var hann vistaður í fangaklefa.
Í sama hverfi var aðili handtekinn vegna líkamsárásar og eignaspjalla og var vistaður í fangaklefa.