Húseigendur sem seldu fasteignafélaginu Þórkötlu hús sín í Grindavík geta frá og með deginum í dag geymt eigur sínar í húsum sem þeir seldu geri þeir sérstakan hollvinasamning við félagið en RÚV greinir frá þessu.
Velji fólk að gera slíkan samning þarf viðkomandi að borga hita og rafmagnskostnað og 30 þúsund króna gjald. Þá þurfa þeir sem semja við Þórkötlu á þennan máta að sinna minni háttar viðhaldi en ekki er í boði að semja um hefðbundinn leigusamning segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu. Hann segir að of mikil óvissa sé í spilunum til hægt sé að stíga það skref.
Örn segir að langtímamarkmiðið sé að fólk geti keypt eignirnar aftur síðar ef aðstæður breytast en með þessu geti þeir sem semja við Þórkötlu viðhaldið sambandi við eignir sínar. „Þetta er tvíþætt, annars vegar viljum við stuðla að tengslum fólks við hús sem það hefur tilfinningar til,“ sagði Örn Viðar. „Síðan er það þannig að við erum að horfa á eftirlit með heilu bæjarfélagi. Það er mikil hjálp í því ef fólk vill sinna viðhaldi og nostra að einhverju leyti við eignirnar sem við teljum að við munum eiga erfitt með að ná utan um.“
Alls hefur Þórkatla gengið frá 907 kaupsamningum í Grindavík.