Kakkalakkar og veggjalýs eru að verða stærra vandamál á Íslandi en áður samkvæmt Steinari Smára Guðbergssyni meindýraeyði. Hann segir þó veggjalýs vera stærra vandamál en kakkalakkar og útköllum hafi fjölgað.
Steinar hvetur fólk til að skoða rækilega ferðatöskur sínar þegar pakkað er í þær erlendis en kakkalakkar eigi það til að koma heim með Íslendingum frá útlöndum en þeir halda helst til í eldhúsum og baðherbergjum. Bendir hann sérstaklega á snyrtitöskur og buddur í því samhengi. Þá segir hann að kakkalakkar séu komnir í lagnir víða á Íslandi og þá sérstaklega í eldri húsum en erfitt getur verið að losna sig við þá þar sem þeir eiga það til að mynda ónæmi fyrir eitri.
„Að hreinsa þetta það getur verið að það þurfi að henda rúminu. Það er stundum alveg svakalega erfitt að ná pöddunum úr rúmbotninum sérstaklega,“ sagði Steinar við RÚV um veggjalýs en sumir hafa átt það til að frysta dýnur og rúmbotna til að losa sig við meindýrin.