Í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands er greint frá því að kennarar í fjórum grunnskólum á landinu hafi samþykkt að fara í verkfall. Verkfallið hefst 6. janúar næstkomandi og lýkur 31. janúar náist samningar ekki fyrir þannig tíma.
Skólarnir sem um ræðir eru Egilsstaðaskóli, Engjaskóli, Grundaskóla og Lindaskóli. Samkvæmt KÍ var verkfall samþykkt með nærri 100% greiddra atkvæða.
Félagsmenn Kennarasambandsins í sautján skólum hafa nú samþykkt verkföll, sum eru hafin en önnur eru boðuð í næstu viku og í byrjun janúar.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá lista þeirra skóla.
Leikskólar
Verkföll hófust í fjórum leikskólum 29. október síðastliðinn. Þetta eru Leikskóli Seltjarnarness, Holt í Reykjanesbæ, Drafnarsteinn í Reykjavík og Ársalir á Sauðárkróki.
Verkföll þessi eru ótímabundin.
Grunnskólinn
Verkföll hófust í þremur grunnskólum 29. október síðastliðinn. Þetta eru Áslandsskóli í Hafnarfirði, Laugalækjarskóli í Reykjavík og Lundarskóli á Akureyri.
Verkföllin eru tímabundin og lýkur á morgun, föstudaginn 22. nóvember.
Næstu verkföll í grunnskólum hefjast á mánudag, 25. nóvember. Þá fer félagsfólk KÍ í Garðaskóla í Garðabæ, Árbæjarskóla í Reykjavík, og Heiðarskóla í Reykjanesbæ í verkfall.
Verkföllin eru tímabundin, standa til 20. desember, hafi samningar ekki náðst. Þá hafa nú verið boðuð verkföll í fjórum grunnskólum frá og með 6. janúar 2025. Hér eru undir Egilsstaðaskóli á Egilsstöðum, Grundaskóli á Akranesi, Engjaskóli í Reykjavík og Lindaskóli í Kópavogi. Verkföllin eru tímabundin og munu standa til 31. janúar 2025, hafi samningar ekki náðst.
Framhaldsskólar
Félagsfólk KÍ í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið í verkfalli síðan 29. október síðastliðinn. Félagsfólk KÍ í Menntaskólanum í Reykjavík hefur verið í verkfalli síðan 18. nóvember síðastliðinn. Verkföllin eru tímabundin og standa til 20. desember næstkomandi, hafi samningar ekki náðst.
Tónlistarskólar
Félagsfólk KÍ í Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur verið í verkfalli síðan 29. október síðastliðinn. Verkfallið er tímabundið og stendur til 20. desember, hafi samningar ekki náðst.