Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var í mismiklu stuði þegar blaðskellandi Sindri Sindrason, sjónvarpsmaður á stöð 2, heimsótti hann í morgunsárið í liðinni viku. Bjarni á það til að kjökra undan einu og öðru þegar hann er með storminn í fangið eins og nú gerist. Eftir að hafa gantast við Sindra um eggjaskort og hlutverk sitt á heimilinu færðist alvörusvipur yfir andlit Bjarna og hann ræddi um aðför að sér og að það hafi verið „gengið nærri hjónabandi sínu“.
„Það hefur ýmislegt verið grafið upp með stolnum gögnum og þetta allt saman túlkað á versta veg en ég hef komist í gengum það allt saman,“ segir Bjarni.
Sindri gekk ekki eftir svörum um það hvað Bjarni væri að fara með orðum sínum en formaðurinn komst á sínum tíma í fréttir þegar upplýst var um viðkomu hans á framhjáhaldssíðunni Ashley Madisson þar sem hann kallaði sig Icehot1. Hakkarar brutust inn á síðuna og birtu nöfn þeirra sem stóðu í brasi þar. Eftir að málið hafði mallað um hríð í fjölmiðlum steig kona hans, Þóra Baldvinsdóttir, fram og sagði þau hjónin hafa, fyrir forvitni sakir, verið saman á síðunni án þess þó að vera virk.
Bjarni virtist afskaplega einlægur þegar hann nefndi rangtúlkanir og stolin gögn í samhengi við hjónaband sitt. Hann hefur áður komið fram í sjónvarpi og spilað á strengi samúðar þjóðarinnar. Þá sætti hann aðför Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem daðraði við þá hugmynd að verða formaður flokksins. Bjarni beygði af í sjónvarpsviðtali og stóðst áhlaupið en Hanna Birna hrökklaðist út úr pólitík. Óljóst er hvort Bjarni nái að húkka atkvæði út á þetta útspil sitt …