Fjórar íslenskar töldu sig illa sviknar af norsku fyrirtæki árið 1995.
Forsaga málsins er sú að frystihúsið Mathisen fiskeindustri auglýsti eftir starfsfólki til að starfa við fiskvinnslu í Kilberg í Norður-Noregi, stutt frá landamærum Rússlands, og var það gert í gegnum íslenska fyrirtækið Ingvarco.
„Þeir sögðu okkur öllum það sama: Að við fengjum greitt farið út og frítt húsnæði. Nú er komið í ljós að þetta eru hrein og klár svik og fyrirtækið neitar að borga fyrir okkur farið hingað og ég þarf að greiða sem nemur 20 þúsundum íslenskra króna í leigu á mánuði,“ sagði Rósa Svavarsdóttir við DV um málið en hún seldi íbúð sína og búslóð á Íslandi áður en hún flutti til Noregs. Rósa sagði að launin sem hafi verið greidd hafi verið langt undir því sem lofað var.
Ískaldar að bíða við síma
„Við erum búnar að berjast í því að fá þetta lagfært en ekkert gengur. Við höfum ítrekað haft samband við fyrirtækið í Reykjavík og þeir lofa alltaf að bjarga málunum en ekkert gerist,“ sagði Rósa. „Nú síðast lofuðu þeir að hafa samband við okkur í almenningssíma á tilsettum tíma. Við biðum eftir símtalinu, ískaldar, við símklefann en þeir hringdu ekki. Loksins gáfumst við upp að bíða og ég hringdi í þá. Sá sem varð fyrir svörum þóttist þá ekkert vita hvað tímanum liði og spurði hvort við gætum verið við símaklefann eftir klukkutíma og þá átti allt að vera komið á hreint. Ég samþykkti það en það var sama sagan og þeir hringdu ekki. Þegar ég hringdi aftur þá kom bara símsvari. Þeir eru greinilega hættir að vilja tala við okkur.“
Þá hafi þá hafi ástandið íbúðinni sem Rósa fékk verið mjög slæmt og ekkert verið hægt að hvílast.
„Það er ekki einu sinni rúm til staðar þarna. Við höfum einhvern bedda sem klambrað hefur verið saman á staðnum og er með 5 sentímetra þykka dýnu. Maður er alltaf að vakna upp á nóttunni þegar maður þarf að snúa sér við af kvölum. Við vinnum 11 tíma á sólarhring og auðvitað vantar mikið upp á að það sé einhver hvíld í þessu. Mér sýnist sökin öll liggja hjá fyrirtækinu á Íslandi og framkvæmdastjórinn hérna segir okkur að hún hafi aldrei lofað að greiða fargjaldið eða útvega frítt húsnæði. Mér skilst að þeir hafi fengið greiddar 50 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann sem þeir útveguðu.“
Benda á hvort annað
Þorleifur Ólafsson hjá Ingvarco sagði í samtali við DV að fyrirtækið væri að vinna að því að koma öllu í lag. „Því var lofað af fyrirtækinu úti að farið yrði greitt en þetta er allt að sjatlast núna. Við erum nýbúnir að tala við framkvæmdastjórann og hún ætlar að bæta úr því hvað varðar húsnæðið og fargjaldið. Ég bíð nú eftir að fá fax að utan með staðfestingu þess að þetta verði lagað,“ sagði Þorleifur „Það voru 180 umsækjendur og það er fráleitt að ætla að við höfum þurft að lofa einhverju til að trekkja að. Fyrirtækið hafði samband við okkur og bað okkur að ráða fólk þarna út. Við áttum að fá greitt fyrir það en höfum enn ekki fengið þá peninga. Hún hefur ekki staðið við sitt og við erum að gera okkar besta til að leysa þetta.“
Gerd Solveig Mathisen, framkvæmdastjóri frystihússins Mathisen fiskeindustri, hafnaði öllum ásökunum kvennanna. „Ég get ekki borið ábyrgð á því sem umboðsaðilinn kann að hafa misskilið í mínum skilaboðum. Ég veit sjálf hvað ég hef skrifað og ég hef staðið við það allt.“