Það gerist ekki oft að sami stjórnmálaflokkurinn búi til verstu og bestu auglýsingarnar fyrir alþingiskosningar en Framsóknarflokkurinn hefur unnið það afrek. Það þarf svo sem ekki að segja meira um þá verstu en nóg hefur verið sagt um hana áður.
Ekki nóg með að sama flokknum hafi tekist svo furðulega til þá er leikarinn sá sami, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Í þetta sinn er formaðurinn þó ekki einn á ferð en Elsa Ingjaldsdóttir, eiginkona Sigurðar, deilir með honum sviðsljósinu og óhætt er að segja hún slái heldur betur í gegn. Í auglýsingunni segir hún að Sigurður Ingi sé góður þingmaður og leiðtogi, skýtur létt á Sigmund Davíð Gunnlaugsson og biður kjósendur um að kjósa Framsóknarflokkinn svo hún losni við Sigurð Inga af heimilinu. Það væri vont fyrir hjónabandið að hann kæmist ekki á Alþingi. Í bakgrunni leikur eiginmaður hennar á bongótrommur, sem fer sýnilega í taugarnar á Elsu.
Allt er þetta sett fram í gríni og undir áhrifum sjónvarpsþáttarins The Office. Ekki liggur fyrir hver er hugmyndafræðingurinn á bak við þessa auglýsingu. Sá sem helst er grunaður er aðstoðarmaður Sigurðar, Sigtryggur Magnason. Hann er heilinn á bak við auglýsingaherferðina „Er ekki bara best að kjósa Framsókn“. Auglýsingin getur mögulega tryggt forsætisráðherranum fyrrverandi áframhaldi veru á Alþingi …