Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson gerir dráp á hjálparstarfsmönnum að umræðuefni í pistli sem hann birti í gær.
„Ég held ég muni rétt að það hafi bara einu sinni gerst að íslenskur hjálparstarfsmaður hafi verið drepinn við störf sín. Það var í Afganistan fyrir meira en þrjátíu árum en ég man enn hversu miklum óhug fólk var slegið við fregnirnar,“ skrifar Stefán og setur með hlekk á frétt Al Jazeera sem fjallar um málefnið.
„Á þeim árum áttum við því að venjast að allir aðilar í styrjöldum – jafnvel þeim allra blóðugustu – virtu merki hjálparstofnana og réðust ekki á búðir þeirra, nema þá helst fyrir slysni. Síðar varð margt til að grafa undan þessari virðingu, sem leiddi til þess að sífellt algengara varð að hjálparstarfsmenn væru lagðir að jöfnu við stríðsaðila.
Í ár setti heimurinn ömurlegt met í drápum á hjálparstarfsfólki alþjóðastofnanna. Tæplega 300 hafa verið felld það sem af er ári. Yfirgnæfandi meirihluti í Palestínu. Virðingin fyrir lífi þessa hugrakka fólks er miklu minni þar en í jafnvel sundurtættustu ríkjum í Afríku sunnan Sahara þar sem fullkomin upplausn ríkir,“ heldur Stefán áfram.
Hann segir að það sé alltaf dapurlegt þegar fólk fellur í stríði en það sér einhvern veginn sérstaklega ömurlegt þegar um fólk sem ferðast heimshorna á milli til þess eins að hjálpa deyr við þau störf.