Líkurnar á að þingkosningunum á laugardaginn verði frestað fara hækkandi því veðurspáin fyrir Austurland hefur versnað en von er á mikilli snjókomu á Austfjörðum. Telur veðurfræðingur að líklegt verði þar ófært innanbæjar og jafnvel muni skapast sums staðar snjóflóðahætta.
Austurfrétt segir frá málinu en Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vekur athygli á vernandi veðurspá á heimasíðu sinni Blika.is. Segir hann þar að á morgun komi lægð upp að landinu og frá henni byrji strax að snjóa á Austfjörðum annað kvöld. Allan austurhelming landsins mun síðan snjóa á laugardagsmorgun en verður hún þéttust á Austfjörðum. Líkur eru á að úrkoman safnist mikið upp.
Spá Einars sýnir 29-64 mm á Fjarðarheiði og 36-71 mm í Neskaupsstað. Þá segir Einar að á norðanverðum Austfjörðum geti uppsöfnuð úrkoma orðið allt að 50-100 mm, sem gæti kallað á viðbúnað vegna snjóflóðahættu.
Óvíst er þó enn hvort mesti vindstrengurinn nái upp á land eða haldi sig úti fyrir Austfjörðum en búist er við hvassvirði þegar líður á daginn. Gerist það fýkur nýfallinn snjórinn í skafla, sem getur valdið ófærð innanbæjar á Austfjörðum og í kringum Egilsstaði. Það fer svo eftir vindátt hvort Fagridalur verði í skjóli. Búast má við 12-15 m/s á Fjarðarheiði allan daginn. Þá má búast við sviptivindum í kringum Höfn og á sunnanverðum Austfjörðum.
Samkvæmt Austurfrétt verða engar stórar ákvarðanir teknar varðandi frestun kosninga fyrr en í fyrsta lagi á morgun en kjörstjórnir hafa síðustu daga grandskoðað veðurspár og undirbúið hugsanlegar aðgerðir.