Nokkuð óvenjulegt mál kom upp í gær á Ísafirði en mbl.is greindi frá því að fjölmenn lögregluaðgerð hafi átt sér stað í Stjórnsýsluhúsi Ísafjarðar í fyrradag. Helgi Jensson, lögreglustjóri Vestfjarða, vildi ekki tjá sig um aðgerðina í samtali við miðilinn og sagði að von væri á tilkynningu um málið. Upphaflegar fréttir snéru að því að fíkniefni hefðu komið við sögu í aðgerðinni. Málið hefur verið upplýst, ef svo mætti segja. Vísir hafði samband við lögreglustjórann í dag og fékkst það á hreint að tveimur málum hafi verið blandað saman. Lögregluaðgerðin sem fór fram í Stjórnsýsluhúsinu hafi verið æfing lögreglu á svæðinu og þá hafi komið upp fíkniefnamál í umdæminu. Hélt lögreglustjórinn að blaðamaður mbl.is væri að spyrja um fíkniefnamálið og vildi því ekki tjá sig um það. Það liggja þó ennþá ekki fyrir nánari upplýsingar um það mál en von er á tilkynningu um málið frá lögregluembættinu.