Verkfalli kennara, á öllum stigum, hefur verið frestað út janúar en Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari staðfesti það við fjölmiðla nú fyrir stuttu. Verður tíminn notaður í að komast að samkomulagi en kennarar fá umsamda 3,95% launahækkun um áramótin. „Okkar fólk er tilbúið til að halda baráttunni áfram. Þetta er barátta fyrir því að getum fjárfest í kennurum, eflt skólastarfið, gert hlutina betur. Mitt fólk hefur verið ótrúlega öflugt allan þennan tíma og við erum ekki að gefast upp. Alls ekki. Við erum að stoppa hérna til þess að gefa okkur andrými til að komast lengra. Við erum enn þá algerlega á þeirri vegferð að við munum komast í endamarkið,“ sagði Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, við Vísi um málið. Meðan viðræður um nýjan kjarasamning halda áfram gildir friðskylda en verkfallið hófst þann 29. október. Var um ótímabundið verkfall að ræða í fjórum leikskólum en tímabundið í þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla.