Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, er á leið til Íslands 4. september í opinbera heimsókn, en viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna hefur aldrei verið nánara en nú, eftir mikinn vöxt í komu Bandaríkjamanna til Íslands.
Eitt atriði hefur breyst verulega á undanförnum árum þegar Ísland og Bandaríkin eru annars vegar. Viðskiptasamband þjóðanna hefur gjörbreyst og raunar kúvenst. Það er nú orðið mun umfangsmeira en það var og má segja að hagvaxtarskeiðið á undanförnum árum, frá 2011 til og með 2018, hafi ekki síst verið byggt á sterkara viðskiptasambandi við Bandaríkin. Ferðamenn frá Bandaríkjunum hafa þar verið í lykilhlutverki. Frá árinu 2010 hefur vöxturinn í ferðaþjónustu verið ævintýralegur en hann hefur ekki síst byggt á betri flugsamgöngum til Bandaríkjanna. WOW air byggði meðal annars upp loftbrú til Bandaríkjanna, en fall félagsins hefur verið töluvert áfall þegar kemur að tengingu við Bandaríkin.
Icelandair hefur einnig byggt upp sterka loftbrú við Bandaríkin, en samdrátturinn miðað við tölurnar frá ágúst í fyrra til júlí á þessu ári hefur ekki verið eins mikill og óttast var í fyrstu eftir fall WOW air í mars.
Samtals fækkaði komum Bandaríkjamanna um 7,1 prósent á fyrrnefndu tímabili miðað við árið á undan. Engu að síður eru bandarískir ferðamenn langsamlega fjölmennasti hópurinn sem heimsækir Ísland. Á fyrrnefndu tímabili komu 581 þúsund bandarískir ferðamenn til landsins eða um 27,3 prósent af heildinni. Næst á eftir Bandaríkjamönnum koma Bretar, en þeir voru 275 þúsund, eða um 11 prósent af heild.
Íslensk ferðaþjónusta, og þar með landið allt, á því mikið undir því að loftbrúin haldist góð við Bandaríkin. Samhliða þessum mikla vexti í komum Bandaríkjamanna til landsins hafa önnur viðskipti, með vörur og þjónustu, einnig verið að vaxa. Vöxturinn hefur verið á bilinu 20 til 30 prósent á árunum 2016 til 2018. Í þessum vexti er loftbrúin lykilatriði þar sem vöruflutningar hafa aukist umtalsvert með henni.
Ítarleg fréttaskýringu um máli má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vefsíðu Kjarnans.