Dramatík og átök einkenndu formenn stjórnmálaflokkanna á fundi þeirra í sjónvarpssal. Endanleg úrslit kosninganna urðu ljós á meðan þátturinn stóð yfir. Þá kom í ljós að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lifði af og verður inni sem jöfnunarmaður. Þetta var nánast eins og kraftaverk í beinni útsendingu og Sigurður Ingi lifnaði við.
Greinilegt var í þættinum að Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins eiga litla samleið. Bjarni Benediktsson formaður sagði málflutning Ingu Sæland um bruðl hvað varðara lífeyriskerfið vera „óboðlegan“. Inga áréttaði að flokkur hennar færi ekki í ríkisstjórn nema gengið verði að kröfunni um að lágmarkslaun eftir skatta og skyldur yrðu í kringum 450 þúsund krónur. Sýnilega er lítil von um að Bjarni og Inga nái saman um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Miðflokkins. Augljóst var að nokkrir kærleikar voru á milli Bjarna og Sigmundar Davíðs. Aftur á móti var augljós núningur á milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og Sigurðar Inga sem ýjaði að því að Miðflokkurinn ætlaði sér ekki að standa við kosningaloforð sín.
„Þú ert orðinn svo sprækur eftir að þú dast inn á þing,“ sagði Sigmundur Davíð við sinn gamla flokksbróður sem á sínum tíma felldi hann af formannsstóli Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi harmaði að flokkur hans hefði skroppið saman á sama tíma og hann fagnaði sínu eigin kraftaverki. Hann taldi einsýnt að Framsókn yrði utan ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili.
Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir hamraði á Sigmundi og Bjarna með því að þeir vildu ekki leyfa þjóðinni að ráða framvindunni hvað varðart aðild að Evrópusambandinu. Engan samstarfsvilja var að greina þar. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, lék á strengi jákvæðni og sátta. Lesa mátti út úr samtali formannanna að mestar líkur eru á ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks mannsins. Framundar er þó torveld leið.