Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Þegar AIDS kom til Íslands: „Hefnd guðs gegn þeim sem eru kynvilltir og misbjóða honum með óeðli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„AIDS á tæplega eftir að útrýma mannkyninu. Það verða alltaf eftir einhverjir einlífismenn og hjón sem lifa eingöngu kynlífi innan hjónabandsins og geta ekki smitast,“ sagði Haraldur Briem, þáverandi smitsjúkdómalæknir í samtali við DV 9. nóvember 1985. Orð Haraldar má engan veginn túlka sem fordóma heldur var þekkingin á sjúkdómnum afar lítil, ekki einvörðungu hjá almenning, heldur einnig á meðal heilbrigðisstarfsmanna.

Það er erfitt að koma í orð þeirri hræðslu, fordómum og vanþekkingu sem upp gaus upp meðal þjóðarinnar eftir að bera fór á HIV veirunni hér á landi upp úr 1983. Sé litið til samtímamiðla síendurtaka sig sömu frasarnir: Pestin ólæknandi væri á pari við lömunarveiki, berkla og svartadauða og vísast væri að þeir sem tækju þessa veiki horfðust beint í augu við dauðann.

Kynvillingaplágan

Fólk var fljótt að benda á sökudólgana, smitberana sem settu líf blásaklauss fólks í hættu með tilveru sinni einni: Samkynhneigða karlmenn eða „kynvillinga“ eins og þá þá þótti eðlilegt að nefna þá. Talað var um „hommaveikina“ og „kynvillingapláguna.“ Ekki einungis þurftu samkynhneigðir karlmenn að þola útskúfun og fordóma heldur þurftu þeir einnig að sjá á eftir vinum og unnustum í dauðann af völdum sjúkdómsins enda engin lækning þekkt á þessum tíma.

„Hvernig sem það er, þá þykir merkilegt að plágan skuli miða út kynvillinga og misþyrma þeim svo hræðilega“

Í aðsendri grein til DV skrifar Helgi Geirsson að „negrar frá eylandinu Haítí hafi reynst smitberar í Bandaríkjunum“ og bætir við: „Vegna þess að „AIDS“ hrjáir kynvillinga svo illilega, þá hefur nafnið „the gay plague“ eða kynvillingaplágan á íslensku fest hana í almennu tali”. Helgi segir trúboða og presta hafa verið fljóta til að benda á að hér sé um að ræða hefnd guðs gegn þeim sem eru kynvilltir og misbjóða þannig náttúrululögmálum hans með óeðli sínu. „Hvernig sem það er, þá þykir merkilegt að plágan skuli miða út kynvillinga og misþyrma þeim svo hræðilega“.

Lokaðar kistur og lík í plastpoka

- Auglýsing -

Lítið var vitað um sjúkdóminn fyrstu árin en meðal þeirra sem börðust hetjulegri baráttu við að reyna að fræða fólk voru meðal annars nokkur fjöldi heilbrigðisstarfsmanna, sumir meðlimir Samtakanna 78 svo og fleiri. En raddir þeirra máttu sín lítils gegn þeim ofsafengna ótta sem ríkti.

„Ástandið var svo óhuggulegt í fyrstu. Lokaðar kistur, lík í plastpoka, engin kistulagning“

„Ástandið var svo óhuggulegt í fyrstu. Lokaðar kistur, lík í plastpoka, engin kistulagning.“ Þannig lýsir hjúkrunarfræðingur stöðunni á smitsjúkdómadeild Borgarspítalans á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda. Hræðslan var mikil og sjúklingarnir upplifðu mikla skömm og margir gripu til þess ráðs að ljúga um orsök veikinda sinna. Fólk neitaði að fara í sjúkrabíla sem það grunaði um að hafa flutt HIV smitaða einstaklinga, þeir voru jafnvel hraktir úr vinnu og dæmi eru um að fjölskyldur hafi alfarið snúið bakið við þeim.

Einangrunarstöð fyrir smitaða homma

- Auglýsing -

Þótt bágt sé að trúa í dag þá stungu framámenn í þjóðfélaginu upp á því í fullri alvöru að koma á fót einangrunarstöð fyrir eyðnismitaða homma. Svona til að koma örugglega í veg fyrir að þeir gætu átt samskipti við annað fólk. Jafnvel var rætt um að svipta þá sjálfræði sem smitast hefðu af veirunni.

Og í pistlinum Dagfara í DV í nóvember 1985 segir meðal annars: „Nú er það svo að það er ekki hægt að loka slíkt fólk inni í búrum þegar það ferðast með strætó en auðvitað kæmi til greina að merkja hugsanlega smitbera líkt og gyðinga forðum og vísa þeim á sérstaka bása í vögnunum öðrum til viðvörunar. Það er að minnsta kosti betra og ódýrara heldur en að aka hverjum og einum vagni í sóttkví í hvert skipti sem grunur leikur á farþega sem fengið hefur veiruna eða gæti hafa fengið veiruna eða mundi geta fengið veiruna“.

„Auðvitað kæmi til greina að merkja hugsanlega smitbera líkt og gyðinga forðum“

Pistillinn var skrifaður eftir að  tveir strætisvagnar hefðu verið settir í sóttkví í tíu klukkustundir á þvottastöð SVR á Kirkjusandi vegna kjaftasögu um að „AIDS-veiran“ leyndist í vögnunum. Enginn starfsmaður þorði að stíga inn í vagnana.

Neitað að kryfja lík smitaðra

Í bókinni Berskjaldaður, þar sem Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir skráði sögu Einars Þór Jónssonar, segir fyrrnefndur hjúkrunarfræðingur frá hversu eitt starfsfólkið sem sinnti alnæmissjúkum hafi verið. Að starfsmenn á rannsóknarstofum spítalans hafi neitað að taka blóð úr sjúklingunum og þeir sem unnu á deildinni hafi orðið að gera það sjálfir. Erfitt var að fá röntgenmyndir teknar og fá eitthvað gert fyrir þá sjúku. „Það voru allir svo hræddir,“ segir hún og veltir fyrir sér ófagmennsku sérfræðinganna sem neituðu að kryfja lík alnæmissjúklinga. Smitsjúkdómalæknarnir hafi orðið að framkvæma krufningarnar sjálfir.

„Okkur var öllum stillt upp við vegg“

„Fólk sem maður vissi af var að veikj­ast al­var­lega og jafn­vel deyja og þetta hafði mik­il áhrif á alla. En eins mik­ill hryll­ing­ur og HIV var fór­um við að fá upp­lýs­ing­ar frá ábyrg­um aðilum eft­ir að þessi vírus kom upp. Okk­ur var öll­um stillt upp við vegg og við urðum að byrja að tala, sem þýddi að upp­lýs­ingaflæði fór að aukast. Við homm­arn­ir lærðum ým­is­legt um okk­ur sjálfa, en um leið líka rest­ina af þjóðinni,“ sagði Páll Óskar Hjálmtýsson í viðtali í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.

Hann segir að það versta hafi þó verið óvissan. „Ég man að ég þorði ekki að þvo á mér hend­urn­ar á al­menn­ingskló­sett­um á Hlemmi og þorði ekki að drekka úr sama glasi og ókunn­ugt fólk. HIV sveif á viss­an hátt yfir manni eins og draug­ur sem kem­ur alltaf aft­ur og aft­ur.

Ótt­inn sem fylgdi því að lifa með þess­um vírus er eitt­hvað sem fór ekki úr mag­an­um á mér fyrr en ég fékk bólu­setn­ingu við HIV,“ sagði Páll Óskar í upprifjun sinni af þessum skelfilega tíma í íslenskri sjúkdómssögu.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 23. júní árið 2021 og var það Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir sem skrifaði hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -