Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Náttúruhamfarir sem fara í sögubækurnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flóðbylgjan í Öskjuvatni sem myndaðist í kjölfarið á risavöxnu berghlaupi náði allt að 80 metra hæð yfir vatnsborði Öskjuvatns. Náttúruhamfarir af þessu tagi kunna að færast í aukana samhliða loftslagsbreytingum. Ferðamenn eru varaðir við að verja of miklum tíma við bakka Öskjuvatns.

Hópur íslenskra vísindamanna notaði líkanreikninga til að herma flóðbylgjuna sem myndaðist eftir gríðarlegt berghlaup í Öskju þann 21. júlí 2014. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkir reikningar eru notaðir hér á landi og munu reikningarnir nýtast til þess að meta hættu af völdum skriðufalla út í vötn og lón. Niðurstöðurnar voru birtar í nýjasta tölublaði Náttúrufræðingsins. „Sögulega er þetta með stærri atburðum sem við höfum upplýsingar um,“ segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á sviði skriðufalla og hættumats hjá Veðurstofu Íslands og einn höfunda greinarinnar. Eitt af því sem kom vísindamönnunum á óvart var hversu stór flóðbylgjan sem myndaðist var. „Af ummerkjum að dæma hefur þetta verið ógurleg flóðbylgja sem reis hæst um 80 metra og náði alla leið upp á barma Vítis. Það er mildi að þetta hafi gerst seint að kvöldi því ferðamenn höfðu verið þarna á ferð aðeins hálftíma áður, þeir hefðu annars verið í bráðri hættu.“ Er ljóst að þarna var bráð hætta á ferð því flóðbylgjan er talin hafa borist yfir vatnið á einungis einni til tveimur mínútum.

Loftlagsbreytingar auka líkurnar

Hættan af stórum berghlaupum kann að fara vaxandi hér á landi samhliða hlýnandi loftslagi og hopun jökla. „Með tilkomu loftslagsbreytinga eiga sér stað miklar breytingar í nánasta umhverfi jökla og við það geta hlíðar orðið óstöðugar þegar jöklar byrja að hopa en nýlegustu dæmin eru hlíðarnar ofan við Svínafellsjökul og Tungnakvíslarjökul. Þar að auki sjáum við ummerki um skriður sem tengja má við bráðnun íss í fjöllum eða sífrera,“ segir Jón Kristinn og rifjar upp nýlegar síferaskriður í Fljótum og Árnestindi á Ströndum. Þá hefur þurft að loka hluta Reynisfjöru vegna skriðufalla en Jón Kristinn segir þau annars eðlis en stóru berghlaupin sem fjallað er um. Þótt þessi hlaup hafi ekki valdið tjóni á fólki eða mannvirkjum þá féllu þau á stöðum þar sem ferðamenn fara gjarnan um. Þróun aðferðafræði sem beitt var við rannsóknir á berghlaupinu í Öskju munu meðal annars nýtast til að meta hættu á öðrum fjölförnum ferðamannastöðum.

Í grein vísindamannanna segir að eðlilegt sé að fólk sem fari að Öskjuvatni sé varað við hættu á skriðuföllum og flóðbylgjum með áberandi hætti þegar það kemur inn á svæðið og að mælt sé með því að það dveljist ekki langdvölum við vatnið. Þá sé rétt að beina tilmælum til ferðaþjónustuaðila að þeir skipuleggi ferðir um svæðið þannig að ekki sé staldrað við niðri við vatnið til að matast. Eftir berghlaupið 2014 var framkvæmt hættumat og skiltum komið upp í samráði við forsvarsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs. „Öskjuvatn er ekki hættulaus staður þótt við eigum ekki von á öðrum atburði á sambærilegum skala á næstunni. Þá eru samt sprungur í brún öskjunnar sem stórar skriður geta fallið um.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -