Leiklistargagnrýnandinn og samfélagsrýnirinn Jón Viðar Jónsson hefur í gegnum tíðina átt góða spretti á Facebook og marga hildi háð. Hann er ófeiminn við að láta skoðanir sínar í ljós og óvæginn í umræðunni þar sem hann leggur orð í belg. En nú er kappinn kominn með nóg og hann er tekinn til við að hreinsa vinalistann. Ástæðan er sjálhverfa, vandlæting og raus.
„Ég er búinn að fá nóg af tvennu hér á FB: annars vegar samfelldum sjálfhverfupóstum manna sem virðast álíta nauðsyn að fésbókarvinir fái upplýsingar um stórt og smátt í daglegu lif þeirra (flest mjög óáhugavert) og hins vegar vandlætingar og rætnisþusi manna sem telja sig í siðferði hátt hafna yfir alla aðra og nauðsyn að básúna það út æ og síð og alla tíð. Og dugar jafnvel ekki til að vera á góðum launum hjá ríkistuddum fjölmiðlum til að svala þeim þörfum sínum …,“ skrifar Jón Viðar en nefnir ekki nein nöfn.
Á meðal þeirra sem standa við ríkisjötuna og básúna á samfélagsmiðlinum er bókmenntaeinvaldurinn Egill Helgason, sem gjarnan lætur í ljósi þekkingu sína á öllu mögulegu. Óljóst er hvort ákvörðun Jóns Viðars snýr að honum.
„Ég eyði hvort eð er of miklum tima hér inni og nenni ekki lengur að skrolla hratt (stundum ofsahratt) áfram þegar sömu nöfnin skjótast upp æ ofan i æ og boða næstu spýju,“ skrifar Jón Viðar …