Sara Oskarsson, listamaður og fyrrverandi varaþingmaður Pírata, hæðist að Reykjavíkurborg í nokkuð óvenjulegum pistli sem hún birti í gær. Hún skrifar pistilinn eins og hún sé að tala fyrir hönd borgaryfirvalda.
„Kæru borgarbúar
Veðurstofan spáir því að á næstu árum gætu röð veðurfræðilegra atvika vel átt sér stað hér á Íslandi. Afleiðingarnar kunna að vera stórskrítinn snjór, furðuleg rigning, nú eða óvenjuleg hálka,“ skrifar listakonan á Vísi en mikið hefur verið rætt um snjómokstur og söltun borgarinnar á undanförnum árum.
„Höfum þó eitt á hreinu kæru útsvarsgreiðendur: við ætlum ekki að grípa ykkur þegar að þið rennið í hálkunni lóðbeint á rassgatið og þríbrjótið ykkur! Það er ykkur sjálfum að kenna. Þið verðið bara annað hvort að vera heima hjá ykkur eða fá ykkur takkaskó.
Ví dónt ker,“ heldur hún áfram og segir að borgin leggi sig fram við að reka sjálfbæra söltunarþjónustu og noti aðeins afgangsborðsalt úr ráðhúsinu til að salta í borginni.
„Gangi ykkur vel.
Borgin
*Fyrirvari: ofangreindur pistill er grín og ekki tilraun til þess að villa á sér heimildir.
Höfundur er enn sem komið er óbrotinn,“ skrifar hún svo að lokum.