Ísland kaus gegn verndun hákarla í útrýmingarhættu á þingi CITES í Genf á sunnudag. Tillögurnar voru þrjár og náðu yfir 18 tegundir „Íslendingar hafa verið mjög tregir að samþykkja vernd á fiskum,“ hefur Fréttablaðið eftir Jóni Má Halldórssyni líffræðingi.
„Við erum fiskveiðiþjóð og það eru stærri hagsmunir sem liggja í öðrum tegundum. Erlendis hafa samtök barist fyrir því að takmarka veiðar á þorski svo dæmi sé tekið,“ sagði Jón. „Ofveiði á hákörlum hefur verið gríðarleg, sérstaklega í Indlandshafi og Kyrrahafi. Því er full ástæða til þess að fara í alvarlegar verndaraðgerðir fyrir þessi dýr.“ Enginn af tegundunum sem um ræðir hafa fundist við strendur Íslands.
CITES, eða Washington-sáttmálinn, er alþjóðlegur samningur sem fjallar um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu. Á þinginu síðast liðinn sunnudag var samþykkt að veita öllum 18 tegundunum vernd. Kosningunni var fagnað með lófaklappi og faðmlögum fulltrúa á staðnum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins kusu þó gegn slíkri verndun.