Það verður ekki tekið af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að hann á erfitt með að hugsa um að einhver annar flokkur sé við völd en Sjálfstæðisflokkurinn enda hefur Hannes verið harður stuðningsmaður flokksins áratugum saman.
Í nýrri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook birtir Hannes mynd af valkyrjunum og gefið lítið fyrir hæfileika þeirra til að stýra landinu. „Sumum þykir fátt skemmtilegra en eyða annarra manna fé, seilast í vasa náunganna og nota feng sinn síðan í náðargjafir og mútur til þeirra, sem urðu að láta af höndum sjálfsaflafé sitt. Þetta fólk er með hugann við að skipta því, sem það kemst yfir, ekki við að skapa. Það hefur engan áhuga á öflugu atvinnulífi, fjölgun tækifæra, gróanda þjóðlífsins. En við hin munum, að ellefta boðorðið er: Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra,“
Hetjan Davíð Oddsson
Hann var þó ekki hættur heldur hélt hann áfram í athugasemdum að skrifa um stjórnmálakonurnar þrjár. „Vonandi verða þær Þorgerður Katrín og Kristrún jafnhagsýnar á þjóðarbúinu og þær voru á eigin búum. Þorgerður Katrín kom milljarði undan í ársbyrjun 2008, eftir að hún hafði hlustað á Davíð Oddsson vara við bankahruni, og hún seldi afganginn af bréfum sínum í Kaupþingi daginn sem Davíð gekk 30. september 2008 á fund ríkisstjórnarinnar til að segja henni, að hrunið væri skollið á. Kristrún græddi um hundrað milljón á kaupaukasamningum við Kviku og taldi gróðann ekki rétt fram (sem fjármagnstekjur, ekki venjulegar tekjur) og ætlaði með því að spara sér 25 milljónir, sem hún varð síðan að greiða. Þær stöllur kunnu að bjarga sér, og nú er komið að því, að þjóðin reyni að nýta þessa hæfileika þeirra.“