Bygging vöruhússins ofan í fjölbýlishúsinu við Árskóga í Breiðholti hefur vakið gríðarlega athygli og reiði. Íbúar sem áður bjuggu við útsýni missa sólskinið og horfa nú á stálgráan vegg af svölum sínum. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar keppast við að lýsa yfir því að mistök hafi verið gerð. Óljóst er hvort kenna skal um kjörnum fulltrúum eða embættismönnum. Björn Axelsson er skipulagsfulltrúi borgarinnar og framarlega í goggunarröð hinna „seku“.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir þetta hús hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu og það hafi verið honum áfall að sjá hvernig þetta lítur út. Hann er í krísu og leitar að útgönguleið.
„Ég vil að húsið verði lækkað,“ sagði hann í viðtali við Moggann og boðaði að hann muni eiga viðræður við byggingaraðilana hvernig staðið verði að því. Þessi lausn kann að verða dýr og himinháar skaðabætur eru handan við hornið ef reynt verður að herja á eigendur vöruhússins.
Mikilvægt er fyrir Einar að málið leysist. Hann er einn helsti erfðaprins Framsóknarflokksins eftir hrunið í þingkosningunum. Ef hann fer í gegnum sveitarstjórnarkosningar og heldur sínu fylgi verða honum allir vegir færir. Ef tap hans verður á pari við það sem gerðist hjá flokknum er viðbúið að Einar sjá fram á sín endalok í pólitík. Stálgrá vöruskemma gæti allt eins orðið pólitískur banabiti hans …