Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er einn sterkasti leiðtogi íslenskrar stjórnmálasögu. Það markast af löngum ferli sem ráðamaður og því „afreki“ að halda saman ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í sjö ár. Árið sem er að líða verður að teljast „annus horribilis“ eða ár hrollvekjunnar hjá Katrínu. Hún tapaði forsetakosningum og flokkur hennar varð gjöreyðingu að bráð.
Það vakti mikla athygli þegar Katrín birtist geislandi í nýjum kjól í drottningaviðtölum á RÚV og Stöð 2 í liðinni viku, Þar vildi hún sem minnst segja annað en að hún væri sorgmædd begna dauða Vinstri-grænna. Aðspurð um mistök vildi hún sem minnst segja og viðtölin voru því fremur innantóm og áleitin spurning um tilgang hennar.
Greinarhöfundur DV velti fyrir sér í grein hvaða tilgangi viðtölin tvö hefðu haft og hvort Katrín væri að sverma fyrir endurkomu í stjórnmálin. Það er áleitin spurning. Forsvarsmenn Sósíalistaflokksins og Pírata hafa velt fyrir sér sameiningu á vinstri vængnum. Gunnar Smári Egilsson, stofanndi Sósíalista, sagði á Samstöðinni að hann sæi ekki fyrir sér að Steingrímur J. Sigfússon, stofnandi VG, kæmi til sín með þrotabú VG á herðunum. Nú er aftur á móti spurningin hvort hann myndi taka við Katrínu í sömu erindum og afhenda henni þau völd sem þarf til að fylkja liði til sigurs og draga sig í hlé sjálfur …